1. KAPÍTULI - Frá uppvexti Ketils hængs.HALLBJÖRN hét maður. Hann var kallaður hálftröll. Hann var sonur Úlfs hins óarga. Hann bjó í eyjunni Hrafnistu. Hún liggur fyrir Raumsdal. Hann var ríkur maður og mjög fyrir þeim bændunum norður þangað. Hann var kvongaður maður og átti þann son, er Ketill hét. Hann var mikill vexti og karlmannlegur maður og ekki vænn.
En þegar Ketill var nokkurra vetra gamall, lagðist hann í eldahús. Það þótti þá röskum mönnum athlægi, er svo gerði. Það var vandi Ketils, þá hann sat við eld, að hann hafði aðra hönd í höfði sér, en með annarri skaraði hann í eldinn fyrir kné sér. Hallbjörn bað hann eigi hafa hönd í höfði sér og sagði, að þá mundi batna með þeim. Ketill svarar engu. Hann hvarf í burtu nokkuru síðar og var í burtu þrjár nætur. Þá kom hann heim og hafði stól á baki sér. Hann var vel gerr. Hann gaf hann móður sinni og kveðst henni meiri ást eiga að launa en föður sínum.
Það var einn tíma um sumarið, veðurdag góðan, að Hallbjörn lét aka heyi, og lá mikið undir. Hallbjörn gekk þá í eldaskálann til Ketils og mælti: "Nú væri ráð, frændi, að duga vel og aka heyi í dag, því að allir eru í önn nýtir."
Ketill spratt þá upp og gekk út. Hallbjörn fékk honum tvö eyki og eina konu til verks. Ekur hann nú heyi til garðs og gengur að svo rösklega, að átta urðu undan að hlaða um síðir, og þóttust þó allir nóg hafa að gera. En er kveld kom, var borgið öllu heyinu, enda voru þá sprungnir báðir eykirnir.
Hallbjörn mælti þá: "Nú þykir mér ráð, frændi, að þú takir við fjárvarðveislu, því að þú ert nú ungur og upprennandi og til alls vel fær, en ég gerist gamall og stirður og til einskis meir."
Ketill kvaðst eigi það vilja. Hallbjörn gaf honum þá öxi eina harla stóra og mjög biturlega og furðu gott vopn. Hann mælti: "Einn er sá hlutur, frændi, að ég vara þig mest við, að þegar degi er sett, vil ég, að þú sért lítt úti, og þó allra helst, að þú gangir eigi norður á eyna frá bænum."
Margt glósaði Hallbjörn þá fyrir Katli, syni sínum.
Björn er maður nefndr. Hann bjó skammt þaðan. Hann hafði það jafnan lagt í vanda að dára Ketil og kallaði hann Ketil Hrafnistufífl. Björn reri jafnan á sjó til fiska.
Það var einn dag, að hann var róinn, að Ketill tók einn fiskibát og vað og öngul og reri út á mið og sat til fiska. Þar var Björn fyrir. Og er þeir sáu Ketil, hlógu þeir mjög og dáruðu hann fast. Gekk Björn enn mest fyrir þessu, sem hann var vanur. Þeir fiskuðu vel, en Ketill dró eina löngu, heldur kostilla, en ekki fleira fiska. En er þeir Björn höfðu hlaðið, kipptu þeir upp veiðarfærum sínum og bjuggust heim, og svo gerði Ketill. Þeir hlógu þá að honum.
Ketill mælti þá: "Nú vil ég leggja af við yður alla mína veiði, og skal sá yðar eiga, sem fyrst náir."
Hann þrífur þá upp lönguna og sendi á skip þeirra. Langan kom við eyrað Birni bónda svo hart, að hausinn lamdist, en Björn hraut útbyrðis og þegar í kaf og kom aldrei upp síðan. Þá reru hinir að landi og svo hvárirtveggju. Fátt gaf Hallbjörn sér að þessu.
Eitt kveld eftir dagsetur tók Ketill öxi sína í hönd sér og gekk norður á eyna. En er hann var kominn eigi allskammt í burt frá bænum, sér hann dreka einn fljúga að sér norðan úr björgunum. Hann hafði lykkju og sporð sem ormur, en vængi sem dreki. Eldur þótti honum brenna úr augum hans og gini. Eigi þóttist Ketill slíkan fisk séð hafa eða nokkura óvætti aðra, því að hann vildi heldur eiga að verjast fjölda manna. Dreki sá sótti að honum, en Ketill varðist með öxinni vel og karlmannlega. Svo gekk lengi, allt þar til að Ketill gat höggvið á lykkjuna og þar í sundur drekann. Datt hann þá niður dauður.
Síðan gekk Ketill heim, og var faðir hans úti í túni og heilsar vel syni sínum og spurði, hvort hann hefði við nokkura glettivætti var orðið norður á eynni.
Ketill svarar: "Ekki kann ég að færa í frásagnir, hvar ég sé fiska renna, en satt var það að sundur hjó ég einn hæng í miðju, hver sem hrygnuna veiðir frá."
Hallbjörn svarar: "Lítils mun þér síðar vert þykja um smáhluti, er þú telur slík kvikindi með smáfiskum. Mun ég nú auka nafn þitt og kalla þig Ketil hæng." Settust þeir nú um kyrrt.
Eldsætinn var Ketill mjög. Hallbjörn sótti mjög veiðiskap, og beiddist Ketill að fara með honum. En Hallbjörn kvað honum makara að sitja við elda en vera í sjóförum. En er Hallbjörn kom til skips, var Ketill þar fyrir, og kunni Hallbjörn þá eigi að reka hann aftur. Gekk Hallbjörn þá fyrir framstafn á ferjunni, en bað Ketil ganga fyrir skut og setja á. Ketill gerði svo, og gekk hvergi.
Hallbjörn mælti: "Ólíkur ertu frændum þínum, og seint ætla ég, að afl verði í þér. En ég var vanur, áður en ég eltist, að setja einn ferjuna."
Ketill reiddist þá og hratt fram ferjunni svo hart, að Hallbjörn hraut fallinn út á fjörugrjótið, en ferjan stöðvaðist ekki fyrri en út á sjó.
Hallbjörn mælti þá: "Lítt lætur þú mig njóta frændsemi frá þér, er þú vilt brjóta bein í mér, en það vil ég nú tala, að ég ætla, að þú sért nógu sterkur, því að ég vilda nú reyna afl þitt, og stóð ég við sem ég gat fastast, en þú settir fram sem áður. Þykir mér góð sonareign í þér."
Fara þeir nú í veiðistöð. Hallbjörn gætti skála, en Ketill reri á sjó. Hann komst við stór föng. Þá reru að honum tveir menn allvígalegir. Þeir báðu hann láta laus föngin. En Ketill neitar því og spurði þá að nafni. Annar kveðst heita Hængur, en annar Hrafn, og vera bræður. Þeir sóttu að honum, en Ketill varðist með kylfu og sló Hæng fyrir borð og drap hann svo, en Hrafn reri á burt. Ketill fór heim til skála síns, og gekk faðir hans á mót honum og spurði, hvort hann hefði nokkuð fundið manna um daginn. Ketill kveðst fundið hafa bræður tvo, Hæng og Hrafn.
Hallbjörn mælti: "Hversu fóru skifti yðar? En gerla veit ég deili á þeim. Þeir eru hraustir menn og eru útlægir úr byggðinni fyrir óspektir sínar."
Ketill kveðst hafa drepið Hæng fyrir borð, en Hrafn hefði flúið.
Hallbjörn mælti: "Gjarn ertu, frændi, á stórfiskana, og því er þó vel til fundið um nafn þitt."
Annan dag fóru þeir heim með föng sín. Þá var Ketill ellefu vetra, og batnaði nú frændsemi þeirra.
2. KAPÍTULI - Ketill drap tvo jötna.Þennan tíma var hallæri mikið á Hálogalandi, en bú þeirra eru mjög í sjónum. Ketill kveðst þá vilja fara til fiskjar og vera eigi allur ómagi. Hallbjörn bauð að fara með honum. Ketill kveðst vera vel einfær með ferjuna.
"Þetta er óráðlegt," sagði Hallbjörn "og viltu einráður vera. En þrjá fjörðu mun ég nefna fyrir þér. Heitir einn Næstifjörður, annar Miðfjörður, þriðji Vitaðsgjafi, og hefir nú langt verið, síðan ég fór úr þeim tveim, og var þá eldur í báðum skálum."
Þetta sumar fór Ketill í Miðfjörð, og lifði þar eldur í skála. Inni í fjarðarbotni fann Ketill stóran skála, og var bóndinn þar ekki heima, er Ketill kom. Mikinn veiðifanga sá hann þar og grafir stórar í jörð niður grafnar, og reif hann allt upp úr þeim og kastar út hér og hvar. Hann fann þar í af hvölum og hvítabjörnum, selum og rostungum og alls konar dýrum, en á botninum í hverri gröf fann hann mannakjöt saltað. Allt rak hann það út, og spillti hann þar hvívetna.
En er kveldaði, heyrir hann áragang mikinn. Gekk hann þá til sjávar. Bóndi reri þá til lands. Hann hét Surtur. Mikill var hann og illilegur. Þegar skipið kenndi grunns, sté hann fyrir borð og tók skipið og bar upp í naust, og nálega óð hann jörðina til knjá.
Hann var dimmraddaður og mæltist við einn saman: "Hér er illa um gengið," sagði hann, "að hrökt er öll eiga mín og með það þó verst farið, sem bezt er, sem eru mannakrof mín. Væri slíkt launa vert. Hefir nú og eigi haglega umskipast, að Hallbjörn, vinur minn, situr nú kyrr heima, en Ketill hængur, eldhúsfíflið, er nú hér kominn, enda væri mér aldrei við of að launa honum. Væri mér næsta skömm í því að bera eigi langt af honum, þar sem hann hefir vaxið upp við eld og verið kolbítur."
Hann snýr heim til skálans, en Ketill undan og nemur staðar að hurðarbaki með reidda öxina. En er Surtur kemur að skálanum, verður hann að lúta í dyrunum harla mjög og rekur fyrst inn höfuðið og herðarnar. Ketill höggur þá á hálsinn með öxinni. Hún söng hátt við, er hún sneið af honum höfuðið. Féll jötunninn þá dauður á skálagólfið. Þar hlóð Ketill ferju sína og fór heim um haustið.
Annað sumar fór hann til Vitaðsgjafa. Hallbjörn latti þess og kvað gott heilum vagni heim að aka. Ketill kvað ekki duga ófreistað, -- "og mun ég fara," sagði hann.
"Reimt mun þér þar þykja," sagði Hallbjörn, "en auðsýnt er það, að þú vilt mínar eldstóar kanna og við mig jafnast í hvívetna." Ketill kvað hann rétt geta.
Síðan fór hann norður í Vitaðsgjafa og fann þar skála og bjóst um. Þar skorti ekki veiðiskap. Mátti þar taka fiska með höndum sér. Ketill festi fangið í naust sitt og fór síðan að sofa. En um morguninn, er hann kom til, var í burtu allt fangið.
Aðra nótt vakti Ketill. Þá sá hann jötun ganga í naustið, og batt sér byrði mikla. Ketill gekk að honum og hjó til hans með öxinni á öxlina, og féll byrðin ofan. Jötunninn brást við fast, er hann fékk sárið, svo að Katli varð laus öxin, og stóð hún föst í sárinu. Jötunninn hét Kaldrani. Hann hljóp inn í fjarðarbotninn og í helli sinn, en Ketill eftir. Þar sátu tröll við eld og hlógu mjög og kváðu Kaldrana hafa fengið maklega skrift fyrir sinn tilverknað. Kaldrani kvað sárinu meiri þörf smyrsla en ávíta. Þá kom Ketill í hellinn og kveðst vera læknir og bað færa sér smyrsl og kveðst vilja binda sár hans. Tröllin fóru innar í hellinn. En Ketill þreif öxina úr sárinu og hjó jötuninn banahögg; fór heim síðan til skála síns og hlóð ferju sína og fór heim síðan, og tók Hallbjörn vel við honum og spurði, ef hann hefði við nokkuð var orðið. Ketill kvað það fjarri farið hafa.
Hallbjörn kvað þá mjög endur rjóða, - "og sastu um kyrrt?" sagði hann.
"Já," sagði Ketill.
3. KAPÍTULI - Ketill var með Brúna og drap Gusi.Um haustið fyrir veturnætur bjó Ketill ferju sína. Hallbjörn spurði, hvað þá skal að hafast. Ketill kveðst ætla í veiðiför.
Hallbjörn kvað það engra manna hátt, -- "og gerir þú þetta í óleyfi mínu."
Ketill fór ekki að síður. Og er hann kom norður á fjörðu, tók hann ofviðri og sleit undan til hafs, og náði ekki höfn, og rak hann að björgum nokkurum norður fyrir Finnmörk og lenti þar, er björgin skildust. Bjóst hann nú um og sofnar. En hann vaknar við það, að skipið skalf allt. Hann stóð upp og sá, að tröllkona tók í stafninn og hristi skipið. Ketill hljóp í bátinn og tók upp smjörlaupa nokkura og hjó festina og reri í burt. Hélst ofviðrið. Þá lagðist hvalur að honum og skýldi skipinu við veðrinu, og þótti honum manns augu í honum vera.
Og þá rak hann að skerjum nokkurum, og braut hann bátinn og lagðist í sker nokkur, og sá hann þá ekki nema sorta til lands, og lagðist hann þangað eftir hvíld sína og komst að landi og hitti götu úr fjörunni og fann bæ. Þar stóð maður úti fyrir dyrum og klauf skíð. Hann hét Brúni. Sá tók við honum vel og kvað vísu:
- "Heill kom þú, Hængur!
- Hér skaltu þiggja
- og í allan vetur
- með oss vera.
- Þér mun ég fastna,
- nema þú fyrir látir,
- dóttur mína,
- áður dagur komi."
- Ketill kvað vísu:
- "Hér mun ég þiggja!
- Hygg ég, að valdi
- Finns fjölkynngi
- feikna veðri.
- Og í allan dag
- einn jós ég við þrjá.
- Hvalur kyrrði haf.
- Hér mun ég þiggja."
Þeir gengu síðan inn. Þar voru fyrir tvær konur. Brúni spurði, hvort hann vill ligga hjá dóttur hans eða einn saman. Hún hét Hrafnhildur og var harla stór vexti og þó drengileg. Svo er sagt, að hún hafði álnar breitt andlit. Ketill kveðst hjá Hrafnhildi liggja vilja.
Síðan fóru þau í rekkju, og breiddi Brúni á þau uxahúð efsta. Ketill spurði, hvað því skyldi. "Ég hefi hingað boðið Finnum, vinum mínum," sagði Brúni, "og vil ég eigi, að þið verðið fyrir sjónum þeirra. Þeir skulu nú koma til smjörlaupa þinna."
Finnar komu og voru eigi mjóleitir. Þeir mæltu: "Mannfögnuður er oss að smjöri þessu."
Síðan fóru þeir í burt. En Ketill var þar eftir og skemmti sér við Hrafnhildi. Hann fór og jafnan í skotbakka og nam íþróttir. Stundum fór hann á dýraveiðar með Brúna. Um veturinn eftir jól fýstist Ketill í burt. En Brúni kvað eigi það mega fyrir vetrarríki og illum veðrum, -- "en Gusir Finna konungur liggur úti á mörkum."
Um vorið bjuggust þeir Brúni og Ketill til ferðar. Þeir fóru hið fremra um fjörðu. Og er þeir skildu, mælti Brúni: "Far þú þá leið, sem ég vísa þér, en eigi á skóginn."
Hann gaf honum skeyti nokkur og brodd einn og bað hann hans neyta, ef hann þyrfti, í nauðsyn sína. Síðan skildu þeir, og fór Brúni heim.
Ketill mæltist við einn saman: "Hví mun ég eigi fara hina skemmri leiðina og hræðast ekki grýlur Brúna?"
Síðan sneri hann á skóginn, og sá hann mjallroku mikla og að maður renndi eftir honum og hafði tvo hreina og vagn. Ketill kvaddi hann með vísu:
Síðan bendu þeir upp boga sína og lögðu örvar á streng og skutust í odda, og fór svo tylft örva hvors, að niður féllu. Fleinn einn var þá eftir, er Gusir átti. Broddur Ketils var og eftir. Þá tók Gusir fleininn, og sýndist honum hallur, og steig hann á. Ketill mælti:
- "Skríð þú af kjálka,
- kyrr þú hreina,
- seggur síðförull,
- seg, hvað þú heitir."
- Sá svarar:
- "Gusi kalla mig
- göfgir Finnar.
- Er ég oddviti
- allrar þjóðar.
- Hvað er það manna,
- er mér í móti fer
- og skríður sem vargur af viði?
- Æðru skaltu mæla,
- ef þú undan kemst
- þrisvar í Þrumufirði.
- Því tel ég þig ósnjallan. "Þeir fundust fyrir Ófara-Þrumu. Ketill kvað vísu:
- "Hængur ég heiti,
- kominn úr Hrafnistu,
- hefnir Hallbjarnar.
- Hví skríður þú svo, inn armi?
- Friðmálum mæla
- munk-at ég við Finn ragan,
- heldur mun ég benda boga,
- þann mér Brúni gaf."
- Gusir þóttist nú vita, hver Hængur sé, því að hann var frægur mjög. Gusir kvað vísu:
- "Hver er á öndrum
- öndverðan dag,
- gjarn til gunnar
- í grimmum hug?
- Við skulum freista
- flein að rjóða
- hvor að öðrum,
- nema hugur bili."
- Ketill kvað:
- "Hæng kalla mig
- hálfu nafni.
- Mun ég veita þér
- viðnám héðan.
- Skaltu víst vita,
- áður við skiljum,
- að búkörlum
- bíta örvar."
- Gusir kvað:
- "Bústu nú við
- bitri eggþrumu.
- Haf þú hlíf fyrir þér.
- Hart mun ég skjóta.
- Þér mun ég bráðla
- að bana verða
- nema þú af auði
- öllum látir."
- Ketill kvað:
- "Mun ég af auði
- eigi láta
- og fyrir einum þér
- aldrei renna.
- Fyrr skal þér höggvin
- hlíf fyrir brjósti,
- en fyr sjónum
- svart að ganga."
- Gusir kvað:
- "Skal-at-tu gulli
- né gersemun
- með heilum hug
- heima ráða.
- Kemur þér bani
- brátt að höndum,
- ef við skulum úti
- oddum leika."
- Ketill kvað:
- "Munk-at ég gulli
- við Gusi skifta
- né heldur fyrri
- til friðar mæla.
- Mér bráður bani
- betri miklu
- en hugleysi
- og heðankváma."
- "Feigur er nú
- Finnur inn ragi,
- að hann fóttreður
- flein sinn rangan."
Síðan skutust þeir að, og mættust nú ekki á fluginum, og fló broddurinn í brjóst Gusi, og fékk hann bana. Brúni hafði látið Gusi sýnast hallur fleinninn, því að hann var konungdóminum næstur, ef Gusi yrði nokkuð, en þóttist áður vanhaldinn af skiftum þeirra. Gusir hafði haft sverð það, er Drangvendill hét, allra sverða best. Ketill tók það af Gusi dauðum og örvarnar Flaug, Hremsu og Fífu.
Ketill fór aftur til Brúna og sagði honum, hvað í hafði gerst. Brúni kvað sér nærri höggvið, að bróðir hans var drepinn. Ketill kveðst nú hafa unnið undir hann konungdóminn. Síðan fylgdi Brúni honum í byggðina, og skildust þeir með miklum kærleikum.
Eigi er fyrr sagt af ferðum Ketils en hann kom heim til Hrafnistu. Hann hitti bónda einn og spurði, hvað skip þau skyldu, er fóru til eyjarinnar. Bóndi kvað það vera boðsmenn, og ætti að drekka erfi eftir Ketil, ef þá spyrðist ekki til hans. Ketill fór á vándu skipi til eyjarinnar og gekk inn í skálann, og urðu menn honum fegnir. Var nú veisunni snúið í fagnaðaröl í mót Katli. Var hann nú heima þrjá vetur.
Þá kom þar skip við eyna, og var þar á Hrafnhildur Brúnadóttir og sonur þeirra Ketils, er Grímur hét. Ketill bauð þeim þar að vera.
Hallbjörn mælti: "Hví býður þú trölli þessu hér að vera?" Og var hann mjög byrstur og styggur við hennar kvámu.
Hrafnhildur kvað hvorugum þeirra mein mundu að henni vera, - "og mun ég burt héðan fara, en Grímur, sonur okkar, loðinkinni skal eftir vera." Því var hann svo kallaður, að kinn hans önnur var loðin, og með því var hann alinn. Þar festi ekki járn á.
Ketill bað Hrafnhildi eigi reiðast fyrir þessa sök. Hún kvað þeim lítt mundu undir þykkja reiði hennar. Síðan fór hún heim og reri norður með landi, en bað Grím þar vera þrjá vetur og kveðst þá mundu koma eftir honum.
4. KAPÍTULI - Kvonfang Ketils og frá hólmgöngu.Bárður hét maður, góður bóndi, og átti dóttur fríða, er Sigríður hét. Sá þótti þá bestur kostur. Hallbjörn bað Ketil biðja sér konu og hyggja svo af Hrafnhildi. Ketill kvað sér ekki hug á kvonföngum, og var hann jafnan hljóður, síðan þau Hrafnhildur skildu. Ketill kveðst mundu fara norður með landi. En Hallbjörn sagðist mundu fara bónorðsför fyrir hann, -- "og er það illt, að þú vilt elska tröll það."
Síðan fór Hallbjörn bónorðsför til Bárðar. Bóndi kvað Ketil hafa farið meiri og torveldari ferðir en biðja sér konu.
"Vænir þú mig lygi?" sagði Hallbjörn.
Bóndi svarar: "Veit ég, að Ketill væri hér kominn, ef honum væri hugur á þessu, en eigi hefi ég traust til né vilja að synja þér konu." Og keyptu þeir saman, og var ákveðin brullaupsstefna.
Síðan fór Hallbjörn heim. Ketill spurði ekki að tíðindum. Hallbjörn kvað mörgum meiri á vera um ráðahaginn forvitnina en Katli. En Ketill gaf að því engan gaum, en þó gekk fram þessi ráðastofnun, og var veizlan góð. Ketill fór ekki af klæðum hina fyrstu nótt, er þau komu í eina sæng. Hún fór ekki að því, og samdist brátt með þeim.
Eftir þetta andaðist Hallbjörn, en Ketill tók við búsforráðum, og var fjölmennt með honum. Ketill átti dóttur við konu sinni, er Hrafnhildur hét.
Og að liðnum þrem vetrum kom Hrafnhildur Brúnadóttir til fundar við Ketil. Hann bauð henni með sér að vera. En hún kveðst ekki þá mundu dveljast. "Þar hefir þú nú gert fyrir um fundi okkar og samvistir í lauslyndi þinni og óstaðfestu."
Hún gekk þá til skips, mjög döpur og þrungin, og var það auðsýnt, að henni þótti mikið fyrir skilnaðinum við Ketil. Grímur var eftir.
Ketill var ríkastur manna norður þar, og þótti þeim mikið traust að honum. Hann fór eitt sumar norður á Finnmörk að finna þau Brúna og Hrafnhildi. Þeir fóru á litlu skipi. Þá lágu þeir við bjarg eitt hjá á nokkurri. Ketill bað Grím sækja þeim vatn. Hann fór og sá tröll við ána. Það bannaði honum og vildi taka hann. Grímur hræddist og hljóp heim og sagði föður sínum. Ketill fór þá til móts við tröllið og kvað vísu:
- "Hvað er það býsna,
- er við berg stendur
- og gapir eldi ufir?
- Búsifjar okkrar
- hygg ég batna munu.
- Líttu á ljóðvega."
Tröllið hvarf, en þeir feðgar fóru heim.
Það var á einu hausti, að víkingar komu til Ketils. Hét annar Hjálmur, en annar Stafnglámur. Þeir höfðu herjað víða. Þeir beiddust að hafa þar friðland með Katli, og þess lét hann þeim kost, og voru þeir með honum um veturinn í góðu yfirlæti.
Um vetur að jólum strengdi Ketill heit, að hann skal eigi Hrafnhildi, dóttur sina, gifta nauðga. Víkingar báðu hann hafa þar þökk fyrir.
Eitt sinn kom þar Áli Uppdalakappi. Hann var upplenskur að ætt. Hann bað Hrafnhildar. Ketill kveðst eigi vilja gifta hana nauðga, - "en tala má ég málið við hana."
Hrafnhildur kveðst eigi vilja leggja ástarhug við Ála eða binda forlög sín við hann. Ketill sagði Ála svo búið, og hér fyrir skorar Áli Ketil á hólm, en Ketill kveðst fara mundu. Þeir bræður, Hjálmur og Stafnglámi, vildu berjast fyrir Ketil. En hann bað þá halda skildi fyrir sig.
En er þeir komu til vígvallar, hjó Áli til Ketils, og varð eigi við brugðið skildinum, og kom blóðrefillinn í enni Ketils og arði niður um nefið, og blædddi mjög. Þá kvað Ketill vísu:
Síðan sveiflar Ketill sverðinu til höfuðsins, en Áli brá upp skildinum. En Ketill hjó þá til fótanna og undan báða, og féll Áli þar.
- "Hjálmur og Stafnglámur,
- hlífið ykkur báðir.
- Gefið rúm gömlum
- að ganga framar hóti.
- Fljúga fólknöðrur.
- Frækn er Dalakappi.
- Ljótur er leikur sverða.
- Litað er skegg á karli.
- Skrapa skinnkyrtlar.
- Skjálfa járnserkir.
- Hristast hringskyrtur.
- Hræðist biðill meyjar."
5. KAPÍTULI - Frá stórvirkjum Ketils.Litlu síðar gerðist hallæri mikið, fyrir því að fiskurinn firrðist landið, en kornárið brást, en Ketill hafði fjölmennt, og þóttist Sigríður þurfa fánga í búið. Ketill kveðst óvanur frýjunni og stökk á skip sitt. Víkingar spurðu, hvert hann vildi. "Ég skal til veiða," sagði hann. Þeir buðu að fara með honum. En hann kvað sér við engu hætt og bað þá annast um bú sitt á meðan.
Ketil kom þar, sem heitir í Skrofum. Og er hann kom til hafnar, sá hann á nesinu tröllkonu í berum skinnkyrtli. Hún var nýkomin af hafi og svört sem bik væri. Hún glotti við sólunni. Ketil kvað vísu:
Sjá leið er fyrir endilangan Noreg. Hún spurði: "Hvað skaltu nú að hafast?"
- "Hvað er það flagða,
- er ég sá á fornu nesi
- og glottir við guma?
- Að uppiverandi sólu,
- hefi ég enga fyrr
- leiðiligri litið."
- Hún kvað:
- "Forað ég heiti.
- Fædd var ég norðarla
- hraust í Hrafnseyju,
- hvimleið búmönnum,
- ör til áræðis,
- hvatki er illt skal vinna."
- Og enn kvað hún:
- "Mörgum manni
- hefik til moldar snúið,
- þeim er til fiskjar fór.
- Hverr er sjá hinn köpurmáli,
- er kominn er í skerin?"
- Hann svarar: "Kalla mig Hæng," sagði hann.
- Hún svarar: "Nær væri þér að vera heima í Hrafnistu en dratta einum til útskerja." Ketill kvað vísu:
- "Einhlítur ég þóttumst,
- áður en hér komum
- of farir vorar,
- hvað er flögð mæla.
- Lasta ég dreng dasinn.
- Dreg ég á vit fanga.
- Lætk-at ég fyrir vinnast,
- hvað er Forað mælir.
- Nauðir mig hvöttu.
- Nánum er að bjarga.
- Hætta ég eigi
- á hólm til sela,
- ef í eyju
- ærnir væri."
- Hún svarar:
- "Synja ég þess eigi,
- seggur inn víðförli,
- að þú líf hafir
- langt of aðra,
- ef þú fund okkarn
- fyrðum óblauðum,
- sveinn lítill, segir.
- Sé ég þinn huga skjálfa."
- Ketill kvað:
- "Ungur var ég heima.
- Fór ég einn saman
- oft í útveri.
- Marga myrkriðu
- fann ég á minni götu.
- Hræddumk-at flagða fnösun.
- Langleit ertu, fóstra,
- og lætur róa nefið,
- leit-at ég ferligra flagð."
- Hún þokaði að honum við og kvað:
- "Gang hóf ég upp í Angri.
- Eigraðak þá til Steigar.
- Skálm glamrandi skrapti.
- Skarmtak þá til Karmtar.
- Elda munk á Jaðri
- og að Útsteini blása.
- Þá munk austur við Elfi,
- áður dagur á mig skíni,
- og með brúðkonum beigla
- og brátt gefin jarli."
"Sjóða slátur og búast til matar," sagði hann. Hún kvað:
- "Seyði þínum mun ég snúa,
- en sjálfum þér gnúa,
- uns þig gríður of grípur."
"Þess er nú að henni von," sagði Ketill. Hún fálmaði þá til hans. Ketill kvað þá vísu:
Svo hétu örvar Ketils. Hann lagði ör á streng og skaut að henni, en hún brást í hvalslíki og steyptist í sjóinn, en örin kom undir fjöðrina. Þá heyrði Ketill skræk mikinn.
- "Örum trúi ég mínum,
- en þú afli þínu.
- Fleinn mun þér mæta,
- nema þú fyrir hrökkvir."
- Hún kveður vísu:
- "Flaug og Fífu
- hugða ég fjarri vera,
- og hræðumst ég eigi
- Hremsu bit."
Þá sá hann gríði og tók til orða: "Rennt mun nú þeim sköpunum, að Forað eigi jarlinn, og ógirnilig er nú rekkja hennar."
Síðan kom Ketill við föng og hlóð ferju sína.
Það var eina nótt, að hann vaknar við brak mikið í skóginum. Hann hljóp út og sá tröllkonu, og féll fax á herðar henni.
Ketill mælti: "Hvert ætlar þú, fóstra?"
Hún reigðist við honum og mælti: "Ég skal til tröllaþings. Þar kemur Skelkingur norðan úr Dumbshafi, konungur trölla, og Ófóti ór Ófótansfirði og Þorgerður Hörgatröll og aðrar stórvættir norðan úr landi. Dvel eigi mig, því að mér er ekki um þig, síðan þú kveittir hann Kaldrana."
Og þá óð hún út á sjóinn og svo til hafs. Ekki skorti gandreiðir í eyjunni um nóttina, og varð Katli ekki mein að því, og fór hann heim við svo búið og sat nú um kyrrt nokkura hríð.
Þessu næst kom við Hrafnistu Framarr, víkinga konungur. Hann var blótmaður, og bitu eigi járn. Hann átti ríki í Húnaveldi á Gestrekalandi. Hann blótaði Árhaug. Þar festi eigi snjó á. Böðmóður hét sonur hans, er átti mikið bú við Árhaug, og var vinsæll maður. Allir báðu Framari ills. Það hafði Óðinn skapað Framari, að hann bitu eigi járn. Framarr bað Hrafnhildar, og hafði Ketill þau svör fyrir sér, að hún skyldi sér sjálf mann kjósa.
Hún kvað nei við Framari, - "vilda ég eigi Ála kjósa mér til bónda, þá mun ég hálfu síður kjósa þetta tröll."
Ketill sagði Framari svör hennar. Hann reiddist mjög fyrir þessi svör. Skoraði Framarr Ketil á hólm við Árhaug jóladaginn fyrsta, -- "og ver hvers manns níðingur, ef þú kemur eigi."
Ketill kveðst koma mundu. Þeir Hjálmur og Stafnglámur buðu honum að fara með honum. Ketill kveðst einn fara vilja.
Litlu fyrir jól lét Ketill flytja sig á land í Naumudal. Hann var í loðkápu og stígur á skíð sín og fór upp eftir dalnum og svo yfir skóg til Jamtalands og svo austur yfir Skálkskóg til Helsingjalands og svo austur yfir Eyskógamörk, - hún skilur Gestrekaland og Helsingjaland, - og er hann tuttugu rasta langur, en þriggja breiður og er illur yfirferðar.
Þórir hét maður, er bjó við skóginn. Hann bauð Katli fylgd sína og sagði illvirkja liggja á skóginum: "Sá er fyrir þeim, er heitir Sóti. Hann er svikall og harðfengur."
Ketill kvað sér ekki mein mundu að þeim verða. Síðan fór hann á skóginn og kemur að skála Sóta. Hann var ekki heima. Ketill kveikti upp eld fyrir sér. Sóti kom heim og heilsar ekki Katli og setti vist fyrir sig.
Ketill sat við eld og mælti: "Ertu matníðingur, Sóti?" sagði hann.
Sóti kastaði þá stykkjum nokkurum að Katli. Og er þeir voru mettir, lagðist Ketill niður hjá eldi og hraut mjög. Þá spratt Sóti upp, en Ketill vaknaði og mælti: "Hví sveimar þú hér, Sóti?"
Hann svarar: "Blæs ég að eldi, er næsta var slokinn."
Ketill sofnaði öðru sinni. Þá hljóp Sóti enn upp og tvíhendi öxina. Ketill spratt þá upp og mælti: "Stórum viltu nú brytja," sagði hann. Síðan sat Ketill upp um nóttina.
Um morguninn beiddi Ketill, að Sóti færi með honum á skóginn, og hann fór. Og þá náttaði, lögðust þeir undir eik eina. Ketill sofnar, að því er Sóti hugði, því að hann hraut hátt. Sóti spratt upp og hjó til Ketils, svo að af hraut kápuhatturinn, en Ketill var ekki í kápunni.
Ketill vakti og vildi reyna Sóta. Hann hljóp upp og mælti: "Nú skulu við reyna fangbrögð með okkur."
Ketill kippti Sóta um lág eina og hjó af honum höfuðið og fór síðan leið sína og kom jólaaftan til Árhaugs. Hann var blótaður af Framari og landsmönnum til árs. Þá var kafa hríð. Ketill gekk upp á hauginn og settist í mót veðrinu.
Þá er menn komu í sæti að Böðmóðs, þá tók hann til orða: "Hvort mun Ketill kominn til Árhaugs?". Menn kváðu þess enga von.
Böðmóður mælti: "Þar er sá maður, að ég kann einkis til að geta. Farið nú og vitið um hann og bjóðið honum til vár."
Þeir fóru nú til haugsins og fundu Ketil eigi og segja Böðmóði svo komið. Böðmóður kvað hann kominn mundu upp á hauginn. Fór hann síðan til haugsins og upp á hauginn og sér þar hrúgald mikið á norðanverðum hauginum. Böðmóður kvað vísu:
Síðan fór Ketill með Böðmóði og var með honum um nóttina og sat honum hið næsta. Og um morguninn bauð Böðmóður að fara með honum eða fá mann í móti Framari. Ketill vildi eigi það. "Þá mun ég fara með þér," sagði Böðmóður.
- "Hverr er sá inn hávi
- er á haugi situr
- og horfir veðri við?
- Frostharðan mann
- hygg ég þig feiknum vera
- hvað þér hvergi hlýr."
- Ketill kvað vísu:
- "Ketill ég heiti,
- kominn úr Hrafnistu.
- Þar var ég upp of alinn;
- hugfullt hjarta
- veit ég hlífa mér.
- Þó vilda ég gisting geta."
- Böðmóður kvað:
- "Upp skaltu rísa
- og ganga haugi af
- og sækja mína sali.
- Málsefnis
- ann ég þér margan dag,
- ef þú vilt þiggja þar."
- Ketill kvað vísu:
- "Upp mun ég nú rísa
- og ganga haugi af,
- alls mér Böðmóður býður.
- Bróðir minn
- þótt sæti brautu nær,
- mundi eigi betur of boðið."
- Böðmóður tók í hönd Katli. Og er hann stóð upp, skriðnuðu honum fætur á hauginum. Þá kvað Böðmóður vísu:
- "Reyndur ertu, fóstri,
- að ganga hervígis til
- og berjast við Framar til fjár.
- Á léttum aldri
- gaf honum Óðinn sigur.
- Mjög kveð ég hann vígum vanan."
- Þá reiddist Ketill, er hann nefndi Óðin, því að hann trúði ekki á Óðin, og kvað vísu:
- Óðin blóta
- gerða ég aldrigi,
- hefik þó lengi lifað.
- Framar falla
- veit ég fyrr munu
- en þetta ið háva höfuð."
Það vildi Ketill, og fóru þeir til Árhaugs. Framarr fór grenjandi til haugsins, og voru þeir Böðmóður og Ketill þar fyrir fjölmennir. Þá sagði Framarr upp hólmgöngulög. Böðmóður hélt skildi fyrir Katli, en engi fyrir Framar. Hann mælti: "Þá skaltu nú vera minn fjandmaður heldur en sonur."
Böðmóður kvað hann hafa sundur sagt frændsemi með þeim í fjölkynngi sinni. Og áður þeir börðust, fló örn af skógi að Framari og sleit af honum klæðin. Þá kvað Framarr vísu:
Þá sótti örninn svo fast, að hann varð vopnum að verjast. Þá kvað hann vísu:
- "Illur er örn í sinni,
- emk-a ég sár að kvíða,
- færir hann greipar sínar
- gular í blóðæðar.
- Hlakkar hreggskornir, '
- hvers er hann forkunnigur,
- oft hefi ég ara gladdan,
- Óðr em ég valgöglum."
Sá átti fyrr að höggva, sem á var skorað. Ketill hjó á öxl Framari. Hann stóð fyrir kyrr, sverðið beit ekki á, en vatzt þó við, að höggið var svo mikið. Framarr hjó til Ketils í skjöldinn. Ketill hjó á aðra öxl Framari, og beit enn ekki. Ketill kvað vísu:
- "Veifir þú vængjum,
- vopnum mun ég þér heita.
- Vafrar þú, víðflogull,
- sem vitir mig feigan.
- Villur ertu, vígstari,
- við munum sigur hafa.
- Hverf þú að Hængi,
- hann skal nú deyja."
Þá sneri hann sverðinu í hendi sér og hverfði fram eggina aðra. Framarr stóð kyrr, er sverðið reið á öxlina, og nam eigi staðar fyrr en í mjöðminni, og flakti frá síðan. Þá kvað Framarr vísu:
- "Dregst þú nú, Dragvendill,
- við krás arnar.
- Mætir þú meingöldrum,
- mátt-at þú bíta.
- Hæng þess eigi varði,
- að hrökkva mundi
- eggjar eiturherðar
- þó að Óðinn deyfði."
- Og enn kvað hann vísu:
- "Hvað er þér, Dragvendill,
- hví ertu slær orðinn?
- Til hefi ég nú höggvið.
- Tregt er þér að bíta.
- Hliðar þú að hjörþingi,
- hefir-at þér fyrr orðið
- bilt í braki málma,
- þar er bragnar hjuggusk."
- Framarr kvað vísu:
- "Skelfur nú skegg á karli.
- Skeika vopn gömlum.
- Frýr hann hjör hvössum.
- Hræðist faðir meyjar.
- Brýndusk benteinar,
- svo bíta mætti
- höldum hugprúðum,
- ef þér hugur dygði."
- Ketill kvað:
- "Þarft-at-tu oss að eggja,
- eigu mér sjaldan
- fyrðar flugtrauðir
- frýja stórhöggva.
- Bít þú nú, Dragvendill,
- eða brotna ella.
- Báðum er okkur heill horfin,
- ef þú bilar sinn þriðja."
- Og enn kvað hann:
- "Hræðisk-at faðir meyjar,
- meðan heill er Dragvendill.
- Vita ekki víst þykkjumst:
- verðr-at honum bilt þrisvar."
Þá dó Framarr, en Böðmóður fylgdi Katli af vetfangi. Þá mælti Böðmóður: "Nú með því ef þú þykkist mér eiga að launa nokkura liðveislu, þá vil ég, að þú giftir mér dóttur þína."
- "Hugur er í Hængi,
- hvass er Dragvendill,
- beit hann orð Óðins,
- sem ekki væri.
- Brást nú Baldurs faðir,
- brigt er að trúa honum.
- Njóttu heill handa!
- Hér munum skiljast."
Ketill tók því vel og sagði Böðmóð góðan dreng.
Eftir þetta unnið fór Ketill heim og var frægur mjög af sínum stórvirkjum. Hann gifti Hrafnhildi Böðmóði. Ketill réð fyrir Hrafnistu, meðan hann lifði, en Grímur loðinkinni eftir hann. Örvar-Oddur var sonur Gríms.
Og lýkur hér þessari sögu.