Hrafnkels saga freysgoða
1. kafli
Það var á dögum Haralds konungs hins hárfagra, Hálfdanar sonar hins svarta, Guðröðar sonar veiðikonungs, Hálfdanar sonar hins milda og hins matarilla, Eysteins sonar frets, Ólafs sonar trételgju Svíakonungs, að sá maður kom skipi sínu til Íslands í Breiðdal, er Hallfreður hét. Það er fyrir neðan Fljótsdalshérað. Þar var á skipi kona hans og sonur, er Hrafnkell hét. Hann var þá fimmtán vetra gamall, mannvænn og gervilegur.
Hallfreður setti bú saman. Um veturinn andaðist útlend ambátt, er Arnþrúður hét, og því heitir það síðan á Arnþrúðarstöðum. En um vorið færði Hallfreður bú sitt norður yfir heiði og gerði bú þar, sem heitir í Geitdal. Og eina nótt dreymdi hann, að maður kom að honum og mælti:
"Þar liggur þú, Hallfreður, og heldur óvarlega. Fær þú á brott bú þitt og vestur yfir Lagarfljót; þar er heill þín öll."
Eftir það vaknar hann og færir bú sitt út yfir Rangá í Tungu, þar sem síðan heitir á Hallfreðarstöðum, og bjó þar til elli. En honum varð þar eftir göltur og hafur. Og hinn sama dag, sem Hallfreður var í brott, hljóp skriða á húsin, og týndust þar þessir gripir; og því heitir það síðan í Geitdal.
2. kafli
Hrafnkell lagði það í vanda sinn að ríða yfir á heiðar á sumarið. Þá var Jökulsdalur albyggður upp að brúm. Hrafnkell reið upp eftir Fljótsdalsheiði og sá, hvar eyðidalur gekk af Jökulsdal. Sá dalur sýndist Hrafnkatli byggilegri en aðrir dalir, þeir sem hann hafði áður séð. En er Hrafnkell kom heim, beiddi hann föður sinn fjárskiptis, og sagðist hann bústað vilja reisa sér. Þetta veitti faðir hans honum, og hann gerir sér bæ í dal þeim og kallar á Aðalbóli.
Hrafnkell fékk Oddbjargar Skjöldólfsdóttur úr Laxárdal. Þau áttu tvo sonu. Hét hinn eldri Þórir, en hinn yngri Ásbjörn.
En þá er Hrafnkell hafði land numið á Aðalbóli, þá efldi hann blót mikil. Hrafnkell lét gera hof mikið. Hrafnkell elskaði eigi annað goð meira en Frey, og honum gaf hann alla hina bestu gripi sína hálfa við sig. Hrafnkell byggði allan dalinn og gaf mönnum land, en vildi þó vera yfirmaður þeirra og tók goðorð yfir þeim. Við þetta var lengt nafn hans og kallaður Freysgoði, og var ójafnaðarmaður mikill, en menntur vel. Hann þröngdi undir sig Jökulsdalsmönnum til þingmanna. Hann var linur og blíður við sína menn, en stríður og stirðlyndur við Jökulsdalsmenn, og fengu þeir af honum öngvan jafnað. Hrafnkell stóð mjög í einvígum og bætti öngvan mann fé, því að engi fékk af honum neinar bætur, hvað sem hann gerði.
Fljótsdalsheiði er yfirferðarill, grýtt mjög og blaut, en þó riðu þeir feðgar jafnan hvorir til annarra, því að gott var í frændsemi þeirra. Hallfreði þótti sú leið torsótt og leitaði sér leiðar fyrir ofan fell þau, er standa í Fljótsdalsheiði. Fékk hann þar þurrari leið og lengri, og heitir þar Hallfreðargata. Þessa leið fara þeir einir, er kunnugastir eru um Fljótsdalsheiði.
3. kafli
Bjarni hét maður, er bjó að þeim bæ, er að Laugarhúsum heitir. Það er við Hrafnkelsdal. hann var kvongaður og átti tvo sonu við konu sinni, og hét annar Sámur, en annar Eyvindur, vænir menn og efnilegir. Eyvindur var heima með föður sínum, en Sámur var kvongaður og bjó í norðanverðum dalnum á þeim bæ, er heitir á Leikskálum, og átti hann margt fé. Sámur var uppivöðslumaður mikill og lögkænn, en Eyvindur gerðist farmaður og fór utan til Noregs og var þar um veturinn. Þaðan fór hann og út í lönd og nam staðar í Miklagarði og fékk þar góðar virðingar af Grikkjakonungi og var þar um hríð.
Hrafnkell átti þann grip í eigu sinni, er honum þótti betri en annar. Það var hestur brúnmóálóttur að lit, er hann kallaði Freyfaxa sinn. Hann gaf Frey, vin sínum, þann hest hálfan. Á þessum hesti hafði hann svo mikla elsku, að hann strengdi þess heit, að hann skyldi þeim manni að bana verða, sem honum riði án hans vilja.
4. kafli
Þorbjörn hét maður. Hann var bróðir Bjarna og bjó á þeim bæ í Hrafnkelsdal, er að Hóli hét, gegnt Aðalbóli fyrir austan. Þorbjörn átti fé lítið, en ómegð mikla. Sonur hans hét Einar hinn elsti; hann var mikill og vel mannaður.
Það var á einu vori, að Þorbjörn mælti til Einars, að hann mundi leita sér vistar nokkurrar, - "því að eg þarf eigi meira forvirki en þetta lið orkar, er hér er, en þér mun verða gott til vista, því að þú ert mannaður vel. Eigi veldur ástleysi þessari brottkvaðning við þig, því að þú ert mér þarfastur barna minna; meir veldur því efnaleysi mitt og fátækt; en önnur börn mín gerast verkmenn. Mun þér þó verða betra til vista en þeim."
Einar svarar: "Of síð hefir þú sagt mér til þessa, því að nú hafa allir ráðið sér vistir, þær er bestar eru, en mér þykir þó illt að hafa úrval af."
Einn dag tók Einar hest sinn og reið á Aðalból. Hrafnkell sat í stofu. Hann heilsar honum vel og glaðlega. Einar leitar til vistar við Hrafnkel. Hann svaraði:
"Hví leitaðir þú þessa svo síð, því að eg mundi við þér fyrstum tekið hafa. En nú hefi eg ráðið öllum hjónum nema til þeirrar einnar iðju, er þú munt ekki hafa vilja." Einar spurði, hver sú væri. Hrafnkell kvaðst eigi mann hafa ráðið til smalaferðar, en lést mikils við þurfa. Einar kvaðst eigi hirða, hvað hann ynni, hvort sem það væri þetta eða annað, en lést tveggja missera björg hafa vilja.
"Eg geri þér skjótan kost," sagði Hrafnkell. "Þú skalt reka heim fimm tigu ásauðar í seli og viða heim öllum sumarviði. Þetta skaltu vinna til tveggja missera vistar. En þó vil eg skilja á við þig einn hlut sem aðra smalamenn mína: Freyfaxi gengur í dalnum fram með liði sínu; honum skaltu umsjá veita vetur og sumar. En varnað býð eg þér á einum hlut: Eg vil, að þú komir aldrei á bak honum, hversu mikil nauðsyn sem þér er á, því að eg hefi hér allmikið um mælt, að þeim manni skyldi eg að bana verða, sem honum riði. Honum fylgja tólf hross. Hvert sem þú vilt af þeim hafa á nótt eða degi, skulu þér til reiðu. Ger nú sem eg mæli, því að það er forn orðskviður, að eigi veldur sá, er varar annan. Nú veistu, hvað eg hefi um mælt."
Einar kvað sér eigi mundu svo meingefið að ríða þeim hesti, er honum var bannað, ef þó væri mörg önnur til.
5. kafli
Einar fer nú heim eftir klæðum sínum og flytur heim á Aðalból. Síðan var fært í sel fram í Hrafnkelsdal, þar sem heitir á Grjótteigsseli.
Einari fer allvel að um sumarið, svo að aldrei verður sauðvant fram allt til miðsumars, en þá var vant nær þremur tigum ásauðar eina nótt. Leitar Einar um alla haga og finnur eigi. Honum var vant nær viku. Það var einn morgun, að Einar gekk út snemma, og er þá létt af allri sunnanþokunni og úrinu. Hann tekur staf í hönd sér, beisl og þófa. Gengur hann þá fram yfir ána Grjótteigsá. Hún féll fyrir framan selið. En þar á eyrunum lá fé það, er heima hafði verið um kveldið. Hann stökkti því heim að selinu, en fer að leita hins, er vant var áður. Hann sér nú stóðhrossin fram á eyrunum og hugsar að höndla sér hross nokkurt til reiðar og þóttist vita, að hann mundi fljótara yfir bera, ef hann riði heldur en gengi. Og er hann kom til hrossanna, þá elti hann þau, og voru þau nú skjörr, er aldrei voru vön að ganga undan manni, nema Freyfaxi einn; hann var svo kyrr sem hann væri grafinn niður. Einar veit, að líður morgunninn, og hyggur, að Hrafnkell mundi eigi vita, þótt hann riði hestinum. Nú tekur hann hestinn og slær við beisli, lætur þófa á bak hestinum undir sig og ríður upp hjá Grjótárgili, svo upp til jökla og vestur með jöklunum, þar sem Jökulsá fellur undir þeim, svo ofan með ánni til Reykjasels. Hann spurði alla sauðamenn að seljum, ef nokkur hefði séð þetta fé, og kvaðst engi séð hafa.
Einar reið Freyfaxa allt frá eldingu og til miðs aftans. Hesturinn bar hann skjótt yfir og víða, því að hann var góður af sér. Einari kom það í hug, að honum mundi mál heim og reka það fyrst heim, sem heima var, þótt hann fyndi hitt eigi. Reið hann þá austur yfir hálsa í Hrafnkelsdal. En er hann kemur ofan að Grjótteigi, heyrir hann sauðajarm fram með gilinu, þangað sem hann hafði fram riðið áður. Snýr hann þangað til og sér renna í móti sér þrjá tigu ásauðar, það sama sem hann vantað hafði áður viku, og stökkti hann því heim með fénu.
Hesturinn var votur allur af sveita, svo að draup úr hverju hári hans, var mjög leirstokkinn og móður mjög ákaflega. Hann veltist nokkrum tólf sinnum, og eftir það setur hann upp hnegg mikið; síðan tekur hann á mikilli rás ofan eftir götunum. Einar snýr eftir honum og vill komast fyrir hestinn og vildi höndla hann og færa hann aftur til hrossa, en hann var svo styggur, að Einar komst hvergi í nándir honum.
Hesturinn hleypur ofan eftir dalnum og nemur eigi staðar, fyrr en hann kemur á Aðalból. Þá sat Hrafnkell yfir borðum. Og er hesturinn kemur fyrir dyr, hneggjaði hann þá hátt. Hrafnkell mælti við eina konu, þá sem þjónaði fyrir borðinu, að hún skyldi fara til dyranna, því að hross hneggjaði, - "og þótti mér líkt vera gneggi Freyfaxa." Hún gengur fram í dyrnar og sér Freyfaxa mjög ókræsilegan. Hún sagði Hrafnkeli, að Freyfaxi var fyrir dyrum úti, mjög óþokkulegur.
"Hvað mun gripurinn vilja, er hann er heim kominn?" segir Hrafnkell. "Eigi mun það góðu gegna."
Síðan gekk hann út og sér Freyfaxa og mælti við hann: "Illa þykir mér, að þú ert þann veg til ger, fóstri minn, en heima hafðir þú vit þitt, er þú sagðir mér til, og skal þessa hefnt verða. Far þú til liðs þíns." En hann gekk þegar upp eftir dalnum til stóðs síns.
6. kafli
Hrafnkell fer í rekkju sína um kvöldið og svaf af um nóttina. En um morguninn lét hann taka sér hest og leggja á söðul og ríður upp til sels. Hann ríður í bláum klæðum. Öxi hafði hann í hendi, en ekki fleira vopna.
Þá hafði Einar nýrekið fé í kvíar. Hann lá á kvíagarðinum og taldi fé, en konur voru að mjólka. Þau heilsuðu honum. Hann spurði, hversu þeim færi að. Einar svarar:
"Illa hefir mér að farið, því að vant varð þriggja tiga ásauðar nær viku, en nú er fundinn."
Hann kvaðst ekki að slíku telja. "Eða hefir ekki verr að farið? Hefir það og ekki svo oft til borið sem von hefir að verið, að fjárins hafi vant verið. En hefir þú ekki nokkuð riðið Freyfaxa mínum hinn fyrra dag?"
Hann kvaðst eigi þræta þess mega.
Hrafnkell svarar: "Fyrir hví reiðstu þessu hrossi, er þér var bannað, þar er hin voru nóg til, er þér var lofað? Þar mundi eg hafa gefið þér upp eina sök, ef eg hefði eigi svo mikið um mælt; en þó hefir þú vel við gengið." En við þann átrúnað, að ekki verði að þeim mönnum, er heitstrengingar fella á sig, þá hljóp hann af baki til hans og hjó hann banahögg.
Eftir það ríður hann heim við svo búið á Aðalból og segir þessi tíðindi. Síðan lét hann fara annan mann til smala í selið. En hann lét færa Einar vestur á hallinn frá selinu og reisti vörðu hjá dysinni. Þetta er kölluð Einarsvarða, og er þaðan haldinn miður aftann frá selinu.
7. kafli
Þorbjörn spyr yfir á Hól víg Einars, sonar síns. Hann kunni illa tíðindum þessum. Nú tekur hann hest sinn og ríður yfir á Aðalból og beiðir Hrafnkel bóta fyrir víg sonar síns. Hann kvaðst fleiri menn hafa drepið en þenna einn. "Er þér það eigi ókunnugt, að eg vil öngvan mann fé bæta, og verða menn það þó svo gert að hafa. En þó læt eg svo sem mér þyki þetta verk mitt í verra lagi víga þeirra, er eg hefi unnið. Hefir þú verið nábúi minn langa stund, og hefir mér líkað vel til þín og hvorum okkar til annars. Mundi okkur Einari ekki hafa annað en smátt til orðið, ef hann hefði eigi riðið hestinum. En við munum oft þess iðrast, er við erum of málgir, og sjaldnar mundum við þessa iðrast, þó að við mæltum færra en fleira. Mun eg það nú sýna, að mér þykir þetta verk mitt verra en önnur þau, er eg hefi unnið. Eg vil birgja bú þitt með málnytu í sumar, en með slátrum í haust; svo vil eg gera við þig hvert misseri, meðan þú vilt búa. Sonu þína og dætur skulum við í brott leysa með minni forsjá og efla þau svo, að þau mætti fá góða kosti af því. Og allt, er þú veist í mínum hirslum vera og þú þarft að hafa héðan af, þá skaltu mér til segja og eigi fyrir skart sitja héðan af um þá hluti, sem þú þarft að hafa. Skaltu búa, meðan þér þykir gaman að, en fara þá hingað, er þér leiðist. Mun eg þá annast þig til dauðadags. Skulum við þá vera sáttir. Vil eg þess vænta, að það mæli fleiri, að sjá maður sé vel dýr."
"Eg vil eigi þenna kost," segir Þorbjörn.
"Hvern viltu þá?" segir Hrafnkell.
Þá segir Þorbjörn: "Eg vil, að við tökum menn til gerðar með okkur."
Hrafnkell svarar: "Þá þykist þú jafnmenntur mér, og munum við ekki að því sættast."
Þá reið Þorbjörn í brott og ofan eftir héraði. Hann kom til Laugarhúsa og hittir Bjarna, bróður sinn, og segir honum þessi tíðindi, biður, að hann muni nokkurn hlut í eiga um þessi mál.
Bjarni kvað eigi sitt jafnmenni við að eiga, þar er Hrafnkell er. "En þó að vér stýrum peningum miklum, þá megum vér ekki deila af kappi við Hrafnkel, og er það satt, að sá er svinnur, er sig kann. Hefir hann þá marga málaferlum vafið, er meira bein hafa í hendi haft en vér. Sýnist mér þú vitlítill við hafa orðið, er þú hefir svo góðum kostum neitað. Vil eg mér hér öngu af skipta."
Þorbjörn mælti þá mörg herfileg orð til bróður síns og segir því síður dáð í honum sem meira lægi við. Hann ríður nú í brott, og skiljast þeir nú með lítilli blíðu. Hann léttir eigi, fyrr en hann kemur ofan til Leikskála, drepur þar á dyr. Var þar til dyra gengið. Þorbjörn biður Sám út ganga. Sámur heilsaði vel frænda sínum og bauð honum þar að vera. Þorbjörn tók því öllu seint. Sámur sér ógleði á Þorbirni og spyr tíðinda, en hann sagði víg Einars, sonar síns.
"Það eru eigi mikil tíðindi," segir Sámur, "þótt Hrafnkell drepi menn." Þorbjörn spyr, ef Sámur vildi nokkra liðveislu veita sér. "Er þetta mál þann veg, þótt mér sé nánastur maðurinn, að þó er yður eigi fjarri höggvið."
"Hefir þú nokkuð eftir sæmdum leitað við Hrafnkel?"
Þorbjörn segði allti hið sanna, hversu farið hafði með þeim Hrafnkeli.
"Eigi hefi eg var orðið fyrr," segir Sámur, "að Hrafnkell hafi svo boðið nokkrum sem þér. Nú vil eg ríða með þér upp á Aðalból, og förum við lítillátlega að við Hrafnkel og vita, ef hann vill halda hin sömu boð. Mun honum nokkurn veg vel fara."
"Það er bæði," segir Þorbjörn, "að Hrafnkell mun nú eigi vilja, enda er mér það nú eigi heldur í hug en þá, er eg reið þaðan."
Sámur segir: "Þungt get eg að deila kappi við Hrafnkel um málaferli."
Þorbjörn svarar: "Því verður engi uppreist yðar ungra manna, að yður vex allt í augu. Hygg eg, að engi maður muni eiga jafnmikil auvirði að frændum sem eg. Sýnist mér slíkum mönnum illa farið sem þér, er þykist lögkænn vera og ert gjarn á smásakir, en vilt eigi taka við þessu máli, er svo er brýnt. Mun þér verða ámælissamt, sem maklegt er, fyrir því að þú ert hávaðamestur úr ætt vorri. Sé eg nú, hvað sök horfir."
Sámur svarar: "Hverju góðu ertu þá nær en áður, þótt eg taki við þessu máli og séum við þá báðir hraktir?"
Þorbjörn svarar: "Þó er mér það mikil hugarbót, að þú takir við málinu. Verður að því, sem má."
Sámur svarar: "Ófús geng eg að þessu. Meir geri eg það fyrir frændsemis sakir við þig. En vita skaltu, að mér þykir þar heimskum manni að duga, sem þú ert."
Þá rétti Sámur fram höndina og tók við málinu af Þorbirni.
8. kafli
Sámur lætur taka sér hest og ríður upp eftir dal og ríður á bæ einn og lýsir víginu - fær sér menn - á hendur Hrafnkeli. Hrafnkell spyr þetta og þótti hlægilegt, er Sámur hefir tekið mál á hendur honum.
Leið nú á veturinn. En að vori, þá er komið var að stefnudögum, Ríður Sámur heiman upp á Aðalból og stefnir Hrafnkeli um víg Einars. Eftir það ríður Sámur ofan eftir dalnum og kvaddi búa til þingreiðar, og situr hann um kyrrt, þar til er menn búast til þingreiðar.
Hrafnkell sendi þá menn ofan eftir dalnum og kvaddi upp menn. Hann fer með þingmönnum sínum, sjö tigum manns. Með þenna flokk ríður hann austur yfir Fljótsdalsheiði og svo fyrir vatnsbotninn og um þveran háls til Skriðudals og upp eftir Skriðudal og suður á Öxarheiði til Berufjarðar og rétta þingmanna leið á Síðu. Suður úr Fljótsdal eru sautján dagleiðir á Þingvöll.
En eftir það er hann var á brott riðinn úr héraði, þá safnar Sámur að sér mönnum. Fær hann mest til reiðar með sér einheypinga og þá, er hann hafði saman kvatt; fer Sámur og fær þessum mönnum vopn og klæði og vistir. Sámur snýr aðra leið úr dalnum. Hann fer norður til brúa og svo yfir brú og þaðan yfir Möðrudalsheiði, og voru í Möðrudal um nótt. Þaðan riðu þeir til Herðibreiðstungu og svo fyrir ofan Bláfjöll og þaðan í Króksdal og svo suður á Sand og komu ofan í Sandafell og þaðan á Þingvöll, og var þar Hrafnkell eigi kominn, og fórst honum því seinna, að hann átti lengri leið.
Sámur tjaldar búð yfir sínum mönnum hvergi nær því, sem Austfirðingar eru vanir að tjalda. En nokkru síðar kom Hrafnkell á þing. Hann tjaldar búð sína, svo sem hann var vanur, og spurði, að Sámur var á þinginu. Honum þótti það hlægilegt.
Þetta þing var harla fjölmennt. Voru þar flestir höfðingjar, þeir er voru á Íslandi. Sámur finnur alla höfðingja og bað sér trausts og liðsinnis, en einn veg svöruðu allir, að engi kvaðst eiga svo gott Sámi upp að gjalda, að ganga vildi í deild við Hrafnkel goða og hætta svo sinni virðingu, segja og það einn veg flestum farið hafa, þeim er þingdeilur við Hrafnkel hafa haft, að hann hafi alla menn hrakið af málaferlum þeim, er við hann hafa haft.
Sámur gengur heim til búðar sinnar, og var þeim frændum þungt í skapi og uggðu, að þeirra mál mundu svo niður falla, að þeir mundu ekki fyrir hafa nema skömm og svívirðing; og svo mikla áhyggju hafa þeir frændur, að þeir njóta hvorki svefns né matar, því að allir höfðingjarnir skárust undan liðsinni við þá frændur, jafnvel þeir, sem þeir væntu, að þeim mundi lið veita.
9. kafli
Það var einn morgun snemma, að Þorbjörn karl vaknar. Hann vekur Sám og bað hann upp standa - "má eg ekki sofa."
Sámur stendur upp og fer í klæði sín. Þeir ganga út og ofan að Öxará fyrir neðan brúna. Þar þvo þeir sér. Þorbjörn mælti við Sám:
"Það er ráð mitt, að þú látir reka að hesta vora, og búumst heim. Er nú séð, að oss vill ekki annað en svívirðing."
Sámur svarar: "Það er vel, af því að þú vildir ekki annað en deila við Hrafnkel og vildir eigi þá kosti þiggja, er margur mundi gjarna þegið hafa, sá er eftir sinn náunga átti að sjá. Frýðir þú oss mjög hugar og öllum þeim, er í þetta mál vildu eigi ganga með þér. Skal eg og nú aldrei fyrr af láta en mér þykir fyrir von komið, að eg geti nokkuð að gert."
Þá fær Þorbirni svo mjög, að hann grætur.
Þá sjá þeir vestan að ánni, hóti neðar en þeir sátu, hvar fimm menn gengu saman frá einni búð. Sá var hár maður og ekki þreklegur, er fyrstur gekk, í laufgrænum kyrtli og hafði búið sverð í hendi, réttleitur maður og rauðlitaður og vel í yfirbragði, ljósjarpur á hár og mjög hærður. Sá maður var auðkennilegur, því að hann hafði ljósan lepp í hári sínu hinum vinstra megin.
Sámur mælti: "Stöndum upp og göngum vestur yfir ána til móts við þessa menn."
Þeir ganga nú ofan með ánni, og sá maður, sem fyrir gekk, heilsar þeim fyrri og spyr, hverjir þeir væri. Þeir sögðu til sín. Sámur spurði þenna mann að nafni, en hann nefndist Þorkell og kvaðst vera Þjóstarsson. Sámur spurði, hvar hann væri ættaður eða hvar hann ætti heima. Hann kvaðst vera vestfirskur að kyni og uppruna, en eiga heima í Þorskafirði.
Sámur mælti: "Hvort ertu goðorðsmaður?"
Hann kvað það fjarri fara.
"Ertu þá bóndi?" sagði Sámur.
Hann kvaðst eigi það vera.
Sámur mælti: "Hvað manna ertu þá?"
Hann svarar: "Eg er einn einhleypingur. Kom eg út í fyrra vetur; hefi eg verið utan sjö vetur og farið út í Miklagarð, en er handgenginn Garðskonunginum. En nú er eg á vist með bróður mínum, þeim er Þorgeir heitir."
"Er hann goðorðsmaður?" segir Sámur.
Þorkell svarar: "Goðorðsmaður er hann víst um Þorskafjörð og víðara um Vestfjörðu."
"Er hann hér á þinginu?" segir Sámur.
"Hér er hann víst."
"Hversu margmennur er hann?"
"Hann er við sjö tigu manna," segir Þorkell.
"Eru þér fleiri, bræðurnir?" segir Sámur.
"Er hinn þriðji," segir Þorkell.
"Hver er sá?" segir Sámur.
"Hann heitir Þormóður," segir Þorkell, "og býr í Görðum á Álftanesi. Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skall- Grímssonar frá Borg."
"Viltu nokkurt liðsinni okkur veita?" segir Sámur.
"Hvers þurfið þið við?" segir Þorkell.
"Liðsinnis og afla höfðingja," segir Sámur, "því að við eigum málum að skipta við Hrafnkel goða um víg Einars Þorbjarnarsonar, en við megum vel hlíta okkrum flutningi með þínu fulltingi."
Þorkell svarar: "Svo er sem eg sagði, að eg er engi goðorðsmaður."
"Hví ertu svo afskipta ger, þar sem þú ert höfðingjason sem aðrir bræður þínir?"
Þorkell sagði: "Eigi sagði eg þér það, að eg ætti það eigi, en eg seldi í hendur Þorgeiri, bróður mínum, mannaforráð mitt, áður en eg fór utan. Síðan hefi eg eigi við tekið, fyrir því að mér þykir vel komið, meðan hann varðveitir. Gangið þið á fund hans; biðjið hann ásjá. Hann er skörungur í skapi og drengur góður og í alla staði vel menntur, ungur maður og metnaðargjarn. Eru slíkir menn vænstir til að veita ykkur liðsinni."
Sámur segir: "Af honum munum við ekki fá, nema þú sért í flutningi með okkur."
Þorkell segir: "Því mun eg heita að vera heldur með ykkur en móti, með því að mér þykir ærin nauðsyn til að mæla eftir náskyldan mann. Farið þið nú fyrir til búðarinnar, og gangið inn í búðina. Er mannfólk í svefni. Þið munuð sjá, hvar standa innar um þvera búðina tvö húðföt, og reis eg upp úr öðru, en í öðru hvílir Þorgeir, bróðir minn. Hann hefir haft kveisu mikla í fætinum, síðan hann kom á þingið, og því hefir hann lítið sofið um nætur. En nú sprakk fóturinn í nótt, og er úr kveisunaglinn. En nú hefir hann sofnað síðan og hefir réttan fótinn út undan fötunum fram á fótafjölina sakir ofurhita, er á er fætinum. Gangi sá hinn gamli maður fyrir og svo innar eftir búðinni. Mér sýnist hann mjög hrymdur bæði að sýn og elli. Þá er þú, maður," segir Þorkell, "kemur að húðfatinu, skaltu rasa mjög og falla á fótafjölina og tak í tána þá, er um er bundið, og hnykk að þér og vit, hversu hann verður við."
Sámur mælti: "Heilráður muntu okkur vera, en eigi sýnist mér þetta ráðlegt."
Þorkell svarar: "Annaðhvort verðið þið að gera, að hafa það, sem eg legg til, eða leita ekki ráða til mín."
Sámur mælti og segir: "Svo skal gera sem hann gefur ráð til."
Þorkell kvaðst ganga mundu síðar, - "því að eg bíð manna minna."
10. kafli
Og nú gengu þeir Sámur og Þorbjörn og koma í búðina. Sváfu þar menn allir. Þeir sjá brátt, hvar Þorgeir lá. Þorbjörn karl gekk fyrir og fór mjög rasandi. En er hann kom að húðfatinu, þá féll hann á fótafjölina og þrífur í tána, þá er vanmátta var, og hnykkir að sér, en Þorgeir vaknar við og hljóp upp í húðfatinu og spurði, hver þar færi svo hrapallega, að hlypi á fætur mönnum, er áður voru vanmátta. En þeim Sámi varð ekki að orði.
Þá snaraði Þorkell inn í búðina og mælti til Þorgeirs, bróður síns: "Ver eigi svo bráður né óður, frændi, um þetta, því að þig mun ekki saka. En mörgum tekst verr en vill, og verður það mörgum, að þá fá eigi alls gætt jafnvel, er honum er mikið í skapi. En það er vorkunn, frændi, að þér sé sár fótur þinn, er mikið mein hefir í verið. Muntu þess mest á þér kenna. Nú má og það vera, að gömlum manni sé eigi ósárari sonardauði sinn, en fá engar bætur, og skorti hvervetna sjálfur. Mun hann þess gerst kenna á sér, og er það að vonum, að sá maður gæti eigi alls vel, er mikið býr í skapi."
Þorgeir segir: "Ekki hugði eg, að hann mætti mig þessa kunna, því að eigi drap eg son hans, og má hann af því eigi á mér þessu hefna."
"Eigi vildi hann á þér þessu hefna," segir Þorkell, "en fór hann að þér harðara en hann vildi, og galt hann óskyggnleika síns, en vænti sér af þér nokkurs trausts. Er það nú drengskapur að veita gömlum manni og þurftugum. Er honum þetta nauðsyn, en eigi seiling, þó að hann mæli eftir son sinn, en nú ganga allir höðingjar undan liðveislu við þessa menn og sýna í því mikinn ódrengskap."
Þorgeir mælti: "Við hvern eiga þessir menn að kæra?"
Þorkell svaraði: "Hrafnkell goði hefir vegið son hans Þorbjarnar saklausan. Vinnur hann hvert óverk að öðru, en vill engum manni sóma unna fyrir."
Þorgeir mælti: "Svo mun mér fara sem öðrum, að eg veit eigi mig þessum mönnum svo eiga gott upp að inna, að eg vilji gagna í deilur við Hrafnkel. Þykir mér hann einn veg fara hvert sumar við þá menn, sem málum eiga að skipta við hann, að flestir menn fá litla virðing eða öngva, áður lúki, og sé eg þar fara einn veg öllum. Get eg af því flesta menn ófusa til, þá sem engi nauðsyn dregur til."
Þorkell segir: "Það má vera, að svo færi mér að, ef eg væri höfðingi, að mér þætti illt að deila við Hrafnkel, en eigi sýnist mér svo, fyrir því að mér þætti við þann best að eiga, er allir hrekjast fyrir áður; og þætti mér mikið vaxa mín virðing eða þess höfðingja, er á Hrafnkel gæti nokkra vík róið, en minnkast ekki, þó að mér færi sem öðrum, fyrir því að má mér það, sem yfir margan gengur. Hefir sá og jafnan, er hættir."
"Sé eg," segir Þorgeir, "hversu þér er gefið, að þú vilt veita þessum mönnum. Nú mun eg selja þér í hendur goðorð mitt og mannaforráð, og haf þú það, sem eg hefi haft áður, en þaðan af höfum við jöfnuð af báðir, og veittu þá þeim, er þú vilt."
"Svo sýnist mér," segir Þorkell, "sem þá muni goðorð vort best komið, er þú hafir sem lengst. Ann eg öngum svo vel sem þér að hafa, því að þú hefir marga hluti til menntar um fram alla oss bræður, en eg óráðinn, hvað er eg vil af mér gera að bragði. En þú veist, frændi, að eg hefi til fás hlutast, síðan eg kom til Íslands. Má eg nú sjá, hvað mín ráð eru. Nú hefi eg flutt sem eg mun að sinni. Kann vera, að Þorkell leppur komi þar, að orð hans verði meiri metin."
Þorgeir segir: "Sé eg nú , hversu horfir, frændi, að þér mislíkar, en eg má það eigi vita, og munum við fylgja þessum mönnum, hversu sem fer, ef þú vilt."
Þorkell mælti: "Þessa eins bið eg, að mér þykir betur, að veitt sé."
"Til hvers þykjast þessir menn færir," segir Þorgeir, "svo að framkvæmd verði að þeirra máli?"
"Svo er sem eg sagði í dag, að styrk þurfum við af höfðingjum, en málaflutning á eg undir mér."
Þorgeir kvað honum þá gott að duga, - "og er nú það til að búa mál til sem réttlegast. En mér þykir sem Þorkell vilji, að þið vitjið hans, áður dómar fara út. Munuð þið þá hafa annað hvort fyrir ykkart þrá, nokkra huggan eða læging enn meiri en áður og hrelling og skapraun. Gangið nú heim og verið kátir, af því að þess munuð þið við þurfa, af þið skuluð deila við Hrafnkel, að þið berið ykkur vel upp um hríð, en segið þið engum manni, að við höfum liðveislu heitið ykkur."
Þá gengu þeir heim til búðar sinnar; voru þá ölteitir. Menn undruðust þetta allir, hví þeir hefðu svo skjótt skapskipti tekið, þar sem þeir voru óglaðir, er þeir fóru heiman.
11. kafli
Nú sitja þeir, þar til er dómar fara út. Þá kveður Sámur upp menn sína og gengur til Lögbergs. Var þar þá dómur settur. Sámur gekk þá djarflega að dóminum. Hann hefur þegar upp vottnefnu og sótti mál sitt að réttum landslögum á hendur Hrafnkeli goða, miskviðalaust með skörulegum flutningi. Þessu næst koma þeir Þjóstarssynir með mikla sveit manna. Allir menn vestan af landi veittu þeim lið, og sýndist það, að Þjóstarssynir voru menn vinsælir.
Sámur sótti málið í dóm, þangað til er Hrafnkeli var boðið til varnar, nema sá maður væri þar við staddur, er lögvörn vildi frammi hafa fyrir hann að réttu lögmáli. Rómur varð mikill að máli Sáms; kvaðst engi vilja lögvörn fram vera fyrir Hrafnkel.
Menn hlupu til búðar Hrafnkels og sögðu honum, hvað um var að vera. Hann veikst við skjótt og kvaddi upp menn sína og gekk til dóma, hugði, að þar myndi lítil vörn fyrir landi. Hafði hann það í hug sér að leiða smámönnum að sækja mál á hendur honum. Ætlaði hann að hleypa upp dóminum fyrir Sámi og hrekja hann af málinu. En þess var nú eigi kostur. Þar var fyrir sá mannfjöldi, að Hrafnkell komst hvergi nær. Var honum þröngt frá í brott með miklu ofríki, svo að hann náði eigi að heyra mál þeirra, er hann sóttu. Var honum því óhægt að færa lögvörn fram fyrir sig. En Sámur sótti málið til fullra laga, til þess er Hrafnkell var alsekur á þessu þingi.
Hrafnkell gengur þegar til búðar og lætur taka hesta sína og ríður á brott af þingi og undi illa við sínar málalyktir, því að hann átti aldrei fyrr slíkar. Ríður hann þá austur Lyngdalsheiði og svo austur á Síðu, og eigi léttir hann fyrr en heima í Hrafnkelsdal og sest á Aðalból og lét sem ekki hefði í orðið.
En Sámur var á þingi og gekk mjög uppstertur. Mörgum mönnum þykir vel, þó að þann veg hafi að borist, að Hrafnkell hafi hneykju farið, og minnast nú, að hann hefir mörgum ójafnað sýnt.
12. kafli
Sámur bíður til þess, að slitið er þinginu. Búast menn þá heim. Þakkar hann þeim bræðrum sína liðveislu, en Þorgeir spurði Sám hlæjandi, hversu honum þætti að fara. Hann lét vel yfir því.
Þorgeir mælti: "Þykist þú nú nokkru nær en áður?"
Sámur mælti: "Beðið þykir mér Hrafnkell hafa sneypu, er lengi mun uppi vera, þessi hans sneypa, og er þetta við mikla fémuni."
"Eigi er maðurinn alsekur, meðan eigi er háður féránsdómur, og hlýtur það að hans heimili að gera. Það skal vera fjórtán nóttum eftir vopnatak."
En það heitir vopnatak, er alþýða ríður af þingi.
"En eg get," segir Þorgeir, "að Hrafnkell mun heim kominn og ætli að sitja á Aðalbóli; get eg, að hann mun halda mannaforráð fyrir yður. En þú munt ætla að ríða heim og setjast í bú þitt, ef þú náir að besta kosti. Get eg, að þú hafir það svo þinna mála, að þú kallir hann skógarmann. En slíkan ægishjálm, get eg, að hann beri yfir flestum sem áður, nema þú hljótir að fara nokkru lægra."
"Aldrei hirði eg það," segir Sámur.
"Hraustur maður ertu," segir Þorgeir, "og þykir mér sem Þorkell frændi vilji eigi gera endamjótt við þig. Hann vill nú fylgja þér, þar til er úr slítur með ykkur Hrafnkeli, og megir þú þá sitja um kyrrt. Mun yður þykja nú við skyldastir að fylgja þér, er vér höfum áður mest í fengið. Skulum við nú fylgja þér um sinns sakir í Austfjörðu; eða kanntu nokkra þá leið til Austfjarða, að eigi sé almannavegur?"
Sámur svaraði: "Fara mun eg hina sömu leið, sem eg fór austan."
Sámur varð þessu feginn.
13. kafli
Þorgeir valdi lið sitt og lét sér fylgja fjóra tigu manna. Sámur hafði og fjóra tigu manna. Var það lið vel búið að vopnum og hestum.
Eftir það ríða þeir alla hina sömu leið, þar til er þeir koma í næturelding í Jökulsdal, fara yfir brú á ánni, og var þetta þann morgun, er féránsdóm átti að heyja. Þá spyr Þorgeir, hversu þeir mætti helst á óvart koma. Sámur kvaðst mundu kunna ráð til þess. Hann snýr þegar af leiðinni og upp á múlann og svo eftir hálsinum milli Hrafnkelsdals og Jökulsdals, þar til er þeir koma utan undir fjallið, er bærinn stendur undir niðri á Aðalbóli. Þar gegu grasgeilar í heiðina upp, en þar var brekka brött ofan í dalin, og stóð þar bærinn undir niðri. Þar stígur Sámur af baki og mælti:
"Látum lausa hesta vora og geymi tuttugu menn, en vér sex tigir saman hlaupum að bænum, og get eg, að fátt muni manna á fótum."
Þeir gerðu nú svo, og heita þar síðan Hrossageilar.
Þá bar skjótt að bænum. Voru þá liðin rismál. Eigi var fólk upp staðið. Þeir skutu stokki á hurð og hlupu inn. Hrafnkell hvíldi í rekkju sinni; taka þeir hann þaðan og alla hans heimamenn, þá er vopnfærir voru. Konur og börn var rekið i eitt hús.
Í túninu stóð útibúr. Af því og heim á skálavegginn var skotið voðási einum. Þeir leiða Hrafnkel þar til og hans menn. Hann bauð mörg boð fyrir sig og sína menn. En er það tjáði eigi, þá bað hann mönnum sínum lífs, - "því að þeir hafa ekki til saka gert við yður, en það er mér engi ósæmd, þótt þér drepið mig; mun eg ekki undan því mælast. Undan hrakningum mælist eg; er yður engi sæmd í því."
Þorkell mælti: "Það höfum vér heyrt, að þú hafir lítt verið leiðitamur þínum óvinum, og er vel nú, að þú kennir þess í dag á þér."
Þá taka þeir Hrafnkel og hans menn og bundu hendur þeirra á bak aftur. Eftir það brutu þeir upp útibúrið og tóku reip ofan úr krókum, taka síðan hnífa sína og stinga raufar á hásinum þeirra og draga þar í reipin og kasta þeim svo upp yfir ásinn og binda þá svo átta saman.
Þá mælti Þorgeir: "Svo er komið nú kosti yðrum, Hrafnkell, sem maklegt er, og mundi þér þykja þetta ólíklegt, að þú mundir slíka skömm fá af nokkrum manni, sem nú er orðið. Eða hvort viltu, Þorkell, nú gera, að sitja hér hjá Hrafnkeli og gæta þeirra, eða viltu fara með Sámi úr garði á brott í örskotshelgi við bæinn og heyja féránsdóm á grjóthól nokkrum, þar sem hvorki er akur né eng?" Þetta skyldi í þann tíma gera, er sól væri í fullu suðri.
Þorkell sagði: "Eg vil hér sitja hjá Hrafnkeli, Sýnist mér þetta starfaminna."
Þeir Þorgeir og Sámur fóru þá og háðu féránsdóm, ganga heim eftir það og tóku Hrafnkel ofan og hans menn og settu þá niður í túninu, og var þá sigið blóð fyrir augu þeim. Þá mælti Þorgeir til Sáms, að hann skyldi gera við Hrafnkel slíkt, sem hann vildi, - "því að mér sýnist nú óvandleikið við hann."
Sámur svarar þá: "Tvo kosti geri eg þér, Hrafnkell; sá annar, að þig skal leiða úr garði brott og þá menn, sem mér líkar, og vera drepinn. En með því að þú átt ómegð mikla fyrir að sjá, þá vil eg þess unna þér, að þú sjáir þar fyrir. Og ef þú vilt líf þiggja, þá far þú af Aðalbóli með allt lið þitt og haf þá eina fémuni, er eg skep þér, og mun það harðla lítið, en eg skal taka staðfestu þína og mannaforráð allt. Skaltu aldrei tilkall veita né þínir erfingjar. Hvergi skaltu nær vera en fyrir austan Fljótsdalsheiði, og máttu nú eiga handsöl við mig, ef þú vilt þenna upp taka."
Hrafnkell mælti: "Mörgum mundi betur þykja skjótur dauði en slíkar hrakningar, en mér mun fara sem mörgum öðrum, að lífið mun eg kjósa, ef kostur er. Geri eg það mest sökum sona minna, því að lítil mun vera uppreist þeirra, ef eg dey frá."
Þá er Hrafnkell leystur, og seldi hann Sámi sjálfdæmi. Sámur skipti Hrafnkeli af fé slíkt, er hann vildi, og var það raunlítið. Spjót sitt hafði Hrafnkell með sér, en ekki fleira vopna. Þenna dag færði Hrafnkell sig brott af Aðalbóli og allt sitt fólk. Þorgeir mælti þá við Sám:
"Eigi veit eg, hví þú gerir þetta. Muntu þessa mest iðrast sjálfur, er þú gefur honum líf."
Sámur kvað þá svo vera verða.
14. kafli
Hrafnkell færði nú bú sitt austur yfir Fljótsdalsheiði og um þveran Fljótsdal fyrir austan Lagarfljót. Við vatnsbotninn stóð einn lítill bær, sem hét að Lokhillu. Þetta land keypti Hrafnkell í skuld, því að eigi var kosturinn meiri en þurfti til búshluta hafa. Á þetta lögðu menn mikla umræðu, hversu hans ofsi hafði niður fallið, og minnist nú margur á fornan orðskvið, að skömm er óhófs ævi. Þetta var skógland mikið og mikið merkjum, vont að húsum, og fyrir það efni keypti hann landið litlu verði. En Hrafnkell sá ekki mjög í kostnað og felldi mörkina, því að hún var stór, og reisti þar reisilegan bæ, þann er síðan hét á Hrafnkelsstöðum. Hefir það síðan verið kallaður jafnan góður bær. Bjó Hrafnkell þar við mikil óhægindi hin fyrstu misseri. Hann hafði mikinn aðdrátt af fiskinum. Hrafnkell gekk mjög að verkum, meðan bær var í smíði. Hrafnkell dró á vetur kálf og kið hin fyrstu misseri, og hann hélt vel, svo að nær lifði hvertvetna það, er til ábyrgðar var. Mátti svo að kveða, að nálega væri tvö höfuð á hverju kvikindi.
Á því sama sumri lagðist veiður mikill í Lagarfljót. Af slíku gerðist mönnum búshægindi í héraðinu, og það hélst vel hvert sumar.
15. kafli
Sámur setti bú á Aðalbóli eftir Hrafnkel, og síðan efnir hann veislu virðulega og býður til öllum þeim, sem verið höfðu þingmenn hans. Sámur býðst til að vera yfirmaður þeirra í stað Hrafnkels. Menn játuðust undir það og hugðu þó enn misjafnt til. Þjóstarssynir réðu honum það, að hann skyldi vera blíður og góður fjárins og gagnsamur sínum mönnum, styrktarmaður hvers, sem þeir þurfa við. "Þá eru þeir eigi menn, ef þeir fylgja þér eigi vel, hvers sem þú þarft við. En því ráðum við þér þetta, að við vildum, að þér tækist allt vel, því að þú virðist okkur vaskur maður. Gættu nú vel til, og vertu var um þig, af því að vant er við vondum að sjá."
Þjóstarssynir létu senda eftir Freyfaxa og liði hans og kváðust vilja sjá gripi þessa, er svo gengu miklar sögur af. Þá voru hrossin heim leidd. Þeir bræður líta á hrossin. Þorgeir mælti:
"Þessi hross lítast mér þörf búinu. Er það mitt ráð, að þau vinni slíkt er þau mega til gagnsmuna, þangað til er þau mega eigi lifa fyrir aldurs sökum. En hestur þessi sýnist mér eigi betri en aðrir hestar, heldur því verri, að margt illt hefir af honum hlotist. Vil eg eigi, að fleiri víg hljótist af honum en áður hafa af honum orðið. Mun þar nú maklegt, að sá taki við honum, er hann á."
Þeir leiða nú hestinn ofan eftir vellinum. Einn hamar stendur niður við ána, en fyrir framan hylur djúpur. Þar leiða þeir nú hestinn fram á hamarinn. Þjóstarssynir drógu fat eitt á höfuð hestinum, taka síðan háar stengur og hrinda hestinum af fram, binda stein við hálsinn og týndu honum svo. Heitir þar síðan Freyfaxahamar. Þar ofan frá standa goðahús þau, er Hrafnkell hafði átt. Þorkell vildi koma þar. Lét hann fletta goðin öll. Eftir það lætur hann leggja eld í goðahúsið og brenna allt saman.
Síðan búast boðsmenn í brottu. Velur Sámur þeim ágæta gripi báðum bræðrum, og mæla til til fullkominnar vináttu með sér og skiljast allgóðir vinir; ríða nú rétta leið vestur í fjörðu og koma heim í Þorskafjörð með virðingu.
En Sámur setti Þorbjörn niður að Leikskálum; skyldi hann þar búa. En kona Sáms fór til bús með honum á Aðalból, og býr Sámur þar um hríð.
16. kafli
Hrafnkell spurði austur í Fljótsdal, að Þjóstarssynir höfðu týnt Freyfaxa og brennt hofið. Þá svarar Hrafnkell:
"Eg hygg það hégóma að trúa á goð," - og sagðist hann þaðan af aldrei skyldu á goð trúa, og það efndi hann síðan, að hann blótaði aldrei.
Hrafnkell sat á Hrafnkelsstöðum og rakaði fé saman. Hann fékk brátt miklar virðingar í héraðinu. Vildi svo hver sitja og standa sem hann vildi.
Í þenna tíma komu sem mest skip af Noregi til Íslands. Námu menn þá sem mest land í héraðinu um Hrafnkels daga. Engi náði með frjálsu að sitja, nema Hrafnkel bæði orlofs. Þá urðu og allir honum að heita sínu liðsinni. Hann hét og sínu trausti. Lagði hann land undir sig allt fyrir austan Lagarfljót. Þessi þinghá varð brátt miklu meiri og fjölmennari en sú, er hann hafði áður haft. Hún gekk upp um Skriðudal og upp allt með Lagarfljóti. Var nú skipan á komin á land hans. Maðurinn var miklu vinsælli en áður; hafði hann hina sömu skapsmuni um gagnsemd og risnu, en miklu var maðurinn nú vinsælli og gæfari og hægari en fyrr að öllu. Oft fundust þeir Sámur og Hrafnkell á mannamótum, og minntust þeir aldrei á sín viðskipti. Leið svo fram sex vetur.
Sámur var vinsæll af sínum þingmönnum, því að hann var hægur og kyrr og góður úrlausna og minntist á það, er þeir bræður höfðu ráðið honum. Sámur var skartsmaður mikill.
17. kafli
Þess er getið, að skip kom af hafi í Reyðarfjörð, og var stýrimaður Eyvindur Bjarnason. Hann hafði utan verið sjö vetur. Eyvindur hafði mikið við gengist um menntir og var orðinn hinn vaskasti maður. Eru honum sögð brátt þau tíðindi, er gerst höfðu, og lét hann sér um það fátt finnast. Hann var fáskiptinn maður.
Og þegar Sámur spyr þetta, þá ríður hann til skips. Verður nú mikill fagnafundur með þeim bræðrum. Sámur býður honum vestur þangað, en Eyvindur tekur því vel og biður Sám ríða heim fyrir, en senda hesta á móti varningi hans. Hann setur upp skip sitt og býr um.
Sámur gerir svo, fer heim og lætur reka hesta á móti Eyvindi. Og er hann hefur búið svo um varnað sinn, býr hann ferð sína til Hrafnkelsdals, fer upp eftir Reyðarfirði. Þeir voru fimm saman; hinn sjötti var skósveinn Eyvindar. Sá var íslenskur að kyni, skyldur honum. Þenna svein hafði Eyvindur tekið af volaði og flutt utan með sér og haldið sem sjálfan sig. Þetta bragð Eyvindar var uppi haft, og var það alþýðu rómur að færri væri hans líkar.
Þeir ríða upp Þórisdalsheiði og ráku fyrir sér sextán klyfjaða hesta. Voru þar húskarlar Sáms tveir, en þrír farmenn. Voru þeir og allir í litklæðum og riðu við fagra skjöldu. Þeir riðu um þveran Skriðudal og yfir háls yfir til Fljótsdals, þar sem heita Bulungarvellir, og ofan á Gilsáreyri. Hún gengur austan að fljótinu milli Hallormsstaða og Hrafnkelsstaða. Ríða þeir upp með Lagarfljóti fyrir neðan völl á Hrafnkelsstöðum og svo fyrir vatnsbotninn og yfir Jökulsá að Skálavaði. Þá var jafnnær rismálum og dagmálum.
Kona ein var við vatnið og þó léreft sín. Hún sér ferð manna. Griðkona sjá sópar saman léreftunum og hleypur heim. Hún kastar þeim niður úti hjá viðarkesti, en hleypur inn. Hrafnkell var þá eigi upp staðinn, og nokkrir vildarmenn lágu í skálanum, en verkmenn voru til íðnar farnir. Þetta var um heyjaannir.
Konan tók til orða, er hún kom inn: "Satt er flest það, er fornkveðið er, að svo ergist hver sem eldist. Verður sú lítil virðing, sem snemma leggst á, ef maður lætur síðan sjálfur af með ósóma og hefir eigi traust til að reka þess réttar nokkurt sinni, og eru slík mikil undur um þann mann, sem hraustur hefir verið. Nú er annan veg þeirra lífi, er upp vaxa með föður sínum og þykja yður einskis háttar hjá yður, en þá er þeir eru frumvaxta, fara land af landi og þykja þar mestháttar, sem þá koma þeir; koma við það út og þykjast þá höfðingjum meiri. Eyvindur Bjarnason reið hér yfir á að Skálavaði með svo fagran skjöld, að ljómaði af. Er hann svo menntur, að hefnd væri í honum."
Lætur griðkonan ganga af kappi.
Hrafnkell rís upp og svarar henni: "Kann vera, að þú mælir helst margt satt - eigi fyrir því að þér gangi gott til. Er nú vel, að þér aukist erfiði. Far þú hart suður á Víðivöllu eftir Hallsteinssonum, Sighvati og Snorra. Bið þá skjótt til mín koma með þá menn, sem þar eru vopnfærir."
Aðra griðkonu sendir hann út á Hrólfsstaði eftir þeim Hrólfssonum, Þórði og Halla, og þeim, sem þar voru vopnfærir. Þessir hvorirtveggju voru gildir menn og allvel menntir. Hrafnkell sendi og eftir húskörlum sínum. Þeir uðru alls átján saman. Þeir vopnuðust harðfengilega; ríða þar yfir á sem hinir fyrri.
18. kafli
Þá voru þeir Eyvindur komnir upp á heiðina. Eyvindur ríður þar til, er hann kom vestur á miðja heiðina. Þar heita Bersagötur. Þar er svarðlaus mýri, og er sem ríði í efju eina fram, og tók jafnan í kné eða miðjan legg, stundum í kvið; þá er undir svo hart sem hölkn. Þá er hraun stórt fyrir vestan, og er þeir koma á hraunið, þá lítur sveinninn aftur og mælti til Eyvindar:
"Menn ríða þar eftir oss," segir hann, "eigi færri en átján. Er þar mikill maður á baki í bláum klæðum, og sýnist mér líkt Hrafnkeli goða. Þó hefi eg nú lengi eigi séð hann."
Eyvindur svarar: "Hvað mun oss skipta? Veit eg mér einskis ótta vonir af reið Hrafnkels. Eg hefi honum ekki í móti gert. Mun hann eiga erindi vestur til dals að hitta vini sína."
Sveinninn svarar: "Það býður mér í hug, að hann muni þig hitta vilja."
"Ekki veit eg," segir Eyvindur, "til hafa orðið með þeim Sámi, bróður mínum, síðan þeir sættust."
Sveinninn svarar: "Það vildi eg, að þú riðir undan vestur til dals. Muntu þá geymdur. Eg kann skapi Hrafnkels, að hann mun ekki gera oss, ef hann náir þér eigi. Er þá alls gætt, ef þín er, en þá er eigi dýr í festi, og er vel, hvað sem af oss verður."
Eyvindur sagðist eigi mundu brott undan ríða, - "því að eg veit eigi, hverjir þessir eru. Mundi það mörgum manni hlægilegt þykja, ef eg renn að öllu óreyndu."
Þeir ríða nú vestur af hrauninu. Þá er fyrir þeim önnur mýri, er heitir Oxamýri. Hún er grösug mjög. Þar eru bleytur, svo að nálega er ófært yfir. Af því lagði Hallfreður karl hinar efri götur, þó að þær væri lengri. Eyvindur ríður vestur á mýrina. Lá þá drjúgum í fyrir þeim. Dvaldist þá mjög fyrir þeim. Hina bar skjótt eftir, er lausu riðu. Ríða þeir Hrafnkell nú leið sína á mýrina. Þeir Eyvindur eru þá komnir af mýrinni. Sjá þeir þá Hrafnkel og sonu hans báða. Þeir báðu Eyvind þá undan að ríða. "Eru nú af allar torfærur. Muntu ná til Aðalbóls, meðan mýrin er á millum."
Eyvindur svarar: "Eigi mun eg flýja undan þeim mönnum, er eg hefi ekki til miska gert."
Þeir ríða þá upp á hálsinn. Þar standa fjöll lítil á hálsinum. Utan í fjallinu er meltorfa ein, blásin mjög. Bakkar háir voru umhvefis. Eyvindur ríður að torfunni; þar stígur hann af baki og bíður þeirra.
Eyvindur segir: "Nú munum vér skjótt vita þeirra erindi."
Eftir það gengu þeir upp á torfuna og brjóta þar upp grjót nokkurt. Hrafnkell snýr þá af götunni og suður að torfunni. Hann hafði engi orð við Eyvind og veitti þegar aðgöngu. Eyvindur varðist vel og drengilega. Skósveinn Eyvindar þóttist ekki kröftugur til orrustu og tók hest sinn og ríður vestur yfir háls til Aðalbóls og segir Sámi, hvað leika er. Sámur brá skjótt við og sendi eftir mönnum. Urðu þeir saman tuttugu. Var þetta lið vel búið. Ríður Sámur austur á heiðina og að þar, er vettfangið hafði verið. Þá er umskipti á orðið með þeim. Reið Hrafnkell þá austur frá verkunum. Eyvindur var þá fallinn og allir hans menn.
Sámur gerði það fyrst, að hann leitaði lífs með bróður sínum. Var það trúlega gert. Þeir voru allir líflátnir, fimm saman. Þar voru og fallnir af Hrafnkeli tólf menn, en sex riðu brott. Sámur átti þar litla dvöl, bað menn ríða þegar eftir. Ríða þeir nú eftir þeim og hafa þó mædda hesta. Þá mælti Sámur: "Ná megum vér þeim, því að þeir hafa mædda hesta, en vér höfum alla hvílda, og mun nálægt verða, hvort vér náum þeim eða eigi, áður en þeir komast af heiðinni."
Þá var Hrafnkell kominn austur yfir Oxamýri. Ríða nú hvorirtveggju allt til þess, að Sámur kemur á heiðarbrúnina. Sá hann þá, að Hrafnkell var kominn lengra ofan í brekkurnar. Sér Sámur, að hann mun undan taka ofan í héraðið. Hann mælti þá:
"Hér munum vér aftur snúa, því að Hrafnkeli mun gott til manna verða."
Snýr Sámur þá aftur við svo búið, kemur þar til, er Eyvindur lá, tekur til og verpur haug eftir hann og félaga hans. Er þar og kölluð Eyvindartorfa og Eyvindarfjöll og Eyvindardalur.
19. kafli
Sámur fer þá með allan varnaðinn heim á Aðalból. Og er hann kemur heim, sendir Sámur eftir þingmönnum sínum, að þeir skyldi koma þar um morguninn fyrir dagmál. Ætlar hann þá austur yfir heiði. "Verður ferð vor slík sem má." Um kveldið fer Sámur í hvílu, og var þar drjúgt komið manna.
Hrafnkell reið heim og sagði tíðindi þessi. Hann etur mat, og eftir það safnar hann mönnum að sér, svo að hann fær sjö tigu manna, og ríður við þetta vestur yfir heiði og kemur á óvart til Aðalbóls, tekur Sám í rekkju og leiðir hann út. Hrafnkell mælti þá:
"Nú er svo komið kosti þínum, Sámur, að þér mundi ólíklegt þykja fyrir stundu, að eg á nú vald á lífi þínu. Skal eg nú eigi vera þér verri drengur en þú varst mér. Mun eg bjóða þér tvo kosti: að vera drepinn - hinn er annar, að eg skal einn skera og skapa okkar í milli."
Sámur kvaðst heldur kjósa að lifa, en kvaðst þó hyggja, að hvortveggi mundi harður.
Hrafnkell kvað hann það ætla mega, - "því að vér eigum þér það að launa, og skyldi eg hálfu betur við þig gera, ef þess væri vert. Þú skalt fara brott af Aðalbóli ofan til Leikskála, og sest þar í bú þitt. Skaltu hafa með þér auðæfi þau, sem Eyvindur hafði átt. Þú skalt ekki héðan fleira hafa í fémunum utan það, er þú hefir hingað haft. Það skaltu allt í brott hafa. Eg vil taka við goðorði mínu, svo og við búi og staðfestu. Sé eg, að mikill ávöxtur hefir á orðið á gósi mínu, og skaltu ekki þess njóta. Fyrir Eyvind, bróður þinn, skulu öngvar bætur koma, fyrir því að þú mæltir herfilega eftir hinn fyrra frænda þinn, og hafið þér ærnar bætur þó eftir Einar, frænda yðvarn, þar er þú hefir haft ríki og fé sex vetur. En eigi þykir mér meira vert dráp Eyvindar og manna hans en meiðsl við mig og minna manna. Þú gerðir mig sveitarrækan, en eg læt mér líka, að þú sitjir á Leikskálum, og mun það duga, ef þú ofsar þér eigi til vansa. Minn undirmaður skaltu vera, meðan við lifum báðir. Máttu og til þess ætla, að þú munt því verr fara, sem við eigumst fleira illt við."
Sámur fer nú í brott með lið sitt ofan til Leikskála og sest þar í bú sitt.
Nú skipar Hrafnkell á Aðalbóli búi sínum mönnum. Þóri, son sinn, setur hann á Hrafnkelsstaði. Hefir nú goðorð yfir öllum sveitum. Ásbjörn var með föður sínum, því að hann var yngri.
20. kafli
Sámur sat á Leikskálum þenna vetur. Hann var hljóður og fáskiptinn. Fundu margir það, að hann undi lítt við sinn hlut. En um veturinn, er daga lengdi, fór Sámur við annan mann - og hafði þrjá hesta - yfir brú og þaðan yfir Möðrudalsheiði og svo yfir Jökulsá uppi á fjalli, svo til Mývatns, þaðan yfir Fljótsheiði og Ljósavatnsskarð og létti eigi fyrri en hann kom vestur í Þorskafjörð. Er þar tekið vel við honum. Þá var Þorkell nýkominn út úr för. Hann hafði verið utan fjóra vetur.
Sámur var þar viku og hvíldi sig. Síðan segir hann þeim viðskipti þeirra Hrafnkels og beiðir þá bræður ásjá og liðsinnis enn sem fyrr. Þorgeir hafði meir svör fyrir þeim bræðrum í það sinni, kvaðst fjarri sitja, - "er langt á milli vor. Þóttumst vér allvel í hendur þér búa, áður vér gengum frá, svo að þér hefði hægt verið að halda. Hefir það farið eftir því, sem eg ætlaði, þá er þú gafst Hrafnkeli líf, að þess mundir þú mest iðrast. Fýstum við þig, að þú skyldir Hrafnkel af lífi taka, en þú vildir ráða. Er það nú auðséð, hver viskumunur ykkar hefir orðið, er hann lét þig sitja í friði og leitaði þar fyrst á, er hann gat þann af ráðið, er honum þótti þér vera meiri maður. Megum við ekki hafa að þessu gæfuleysi þitt. Er okkur og ekki svo mikil fýst að deila við Hrafnkel, að við nennum að leggja þar við virðing okkra oftar. En bjóða viljum við þér hingað með skuldalið þitt allt undir okkarn áraburð, ef þér þykir hér skapraunarminna en í nánd Hrafnkeli."
Sámur kveðst ekki því nenna, segist vilja heim aftur og bað þá skipta hestum við sig. Var það þegar til reiðu. Þeir bræður vildu gefa Sámi góðar gjafir, en hann vildi öngvar þiggja og sagði þá vera litla í skapi. Reið Sámur heim við svo búið og bjó þar til elli. Fékk hann aldrei uppreist móti Hrafnkeli, meðan hann lifði.
En Hrafnkell sat í búi sínu og hélt virðingu sinni. Hann varð sóttdauður, og er haugur hans í Hrafnkelsdal út frá Aðalbóli. Var lagt í haug hjá honum mikið fé, herklæði hans öll og spjót hans hið góða. Synir hans tóku við mannaforráði. Þórir bjó á Hrafnkelsstöðum, en Ásbjörn á Aðalbóli. Báðir áttu þeir goðorðið saman og þóttu miklir menn fyrir sér. Og lýkur þar frá Hrafnkeli að segja.